Home Fréttir Í fréttum Höfnun tilboða í fyrsta áfanga Stapaskóla kærð

Höfnun tilboða í fyrsta áfanga Stapaskóla kærð

462
0
Stapaskóli

Framkvæmdir tefjast og bæjaryfirvöld undirbúa „plan B“

<>

Eins og komið hefur fram hafnaði bæjarráð Reykjanesbæjar, sem jafnframt er byggingarnefnd Stapaskóla; nýs skóla í Dalshverfi, öllum tilboðum í fyrsta áfanga skólans þar sem þau voru yfir kostnaðaráætlun. Í framhaldinu var ákveðið að fara í svokallað samkeppnisútboð, eins og talið var heimilt samkvæmt lögum um opinber innkaup, enda hafði bærinn áskilið sér rétt í útboðsgögnum fyrra útboðsins til að hafna öllum tilboðum sem væru yfir kostnaðaráætlun. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjanesbæ.

Lægstbjóðandi í upphaflega útboðinu, sem bauð tæpum 292 milljónum hærra en kostnaðaráætlun gerði ráð fyrir, kærði hins vegar ákvörðun byggingarnefndar um að fara í samkeppnisútboð til kærunefndar útboðsmála sem stöðvaði ferlið á meðan frekari skoðun nefndarinnar á ferlinu fer fram. Endanleg niðurstaða kærunefndar mun væntanlega ekki liggja fyrir fyrr en eftir einhverjar vikur eða mánuði.

Vegna tafa og óvissu sem kæruferlið hefur í för með sér munu framkvæmdir við fyrsta áfanga Stapaskóla líklega tefjast. Samkeppnisútboð var blásið af vegna ákvörðunar kærunefndar útboðsmála sl. föstudag.

„Þetta eru mikil vonbrigði en því miður er ekkert sem við getum gert annað en að bíða eftir niðurstöðu kærunefndar,“ segir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar í tilkynningunni.

„Við höfum unnið hörðum höndum að því að koma nýja skólanum af stað sem fyrst enda íbúafjölgunin mikil og þörf á frekara skólahúsnæði. Það mun hins vegar vera orðið mjög algengt að verktakar kæri niðurstöður stórra útboða, ekki bara hér á landi heldur í gjörvallri Evrópu, og slíkar kærur hafa oftast tafir og kostnað í för með sér. Við höfum notið leiðsagnar og ráðgjafar starfsmanna og lögfræðinga Ríkiskaupa í þessu stóra og mikilvæga máli og talið okkur vera að vinna eins vel og hægt er,“ segir Kjartan Már.

„Reykjanesbær mun nú hefjast handa við að undirbúa plan B sem er að bæta frekari einingum við núverandi bráðabirgðahúsnæði Stapaskóla við Dalsbraut. Við munum tryggja fullnægjandi aðstöðu fyrir nemendur og kennara, hér eftir sem hingað til,“ segir Kjartan að lokum.

Heimild: Vf.is