Home Fréttir Í fréttum Sjóherinn byggir þvottastöð á Keflavíkurvelli

Sjóherinn byggir þvottastöð á Keflavíkurvelli

137
0
Mynd: Vísir/Getty

Útboðsgögn fyrir endurbætur flugskýlis á Keflavíkurflugvelli fyrir útgerð kafbátaleitarvéla verður gefið út í dag. Bandaríski sjóherinn ætlar að senda hingað til lands P-8 Poseidon flugvélar sem nota á til að leita að kafbátum Rússlands í Norður-Atlantshafi. Til þess að hægt verði að þjónusta umræddar flugvélar hér á landi þarf bæði að breyta hurð á flugskýli 831 og reisa sjálfvirka þvottastöð fyrir flugvélarnar.

<>

Með aukinni spennu á milli Rússlands og Vesturlanda hefur hernaðarlegt mikilvægi Íslands aukist á ný.

Á tímum kalda stríðsins var Íslands sérstaklega mikilvægt vegna „GIUK“ línunnar svokölluðu. Þar er átt við línu á milli Grænlands, Íslands og Bretlands, sem notuð var til að finna rússneska kafbáta sem verið var að sigla inn í Atlantshafið. Sérstökum skynjurum var komið fyrir á línunni og fjölda kafbátaleitarvéla var flogið um svæðið.

Áætlun Varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna gerir ráð fyrir að 12,8 milljónum dala verði varið í flugskýli og 4,3 milljónum í þvottastöðina.

Á útboðsvef ríkisins segir að bandarísk yfirvöld munu eingöngu semja við íslensk og bandarísk fyrirtæki en framkvæmdin er eingöngu fjármögnuð af Bandaríkjunum. Þó hafa eingöngu fyrirtæki sem hafa skráð sig hjá Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna heimild til að koma að verkefninu.

Í nýrri varnarstefnu Bandaríkjanna, sem Varnarmálaráðuneytið opinberaði í byrjun árs, kom fram að Bandaríkin ætluðu að leggja minni áherslu á baráttu gegn hryðjuverkastarfsemi og þess í stað einbeita sér að því að sporna gegn áhrifum Kína og Rússlands.

Elbrigde Colby, aðstoðarvarnarmálaráðherra, sagði að verulega hefði dregið úr hernaðaryfirburðum Bandaríkjanna gagnvart Rússlandi og Kína.

Heimild: Visir.is