Home Fréttir Í fréttum Höfnuðu 130 milljóna króna stækkun á salernisaðstöðu

Höfnuðu 130 milljóna króna stækkun á salernisaðstöðu

101
0
Mynd: Grindavík.is

Bæjarráð Grindavíkurbæjar tók fyrir erindi frá Knattspyrnudeild Grindavíkur um hönnun húsnæðis við Hóp og stúku sem kosta mun 237,5 milljónir króna í byggingu, samkvæmt frumkostnaðaráætlun, fyrir utan hönnunarkostnað sem áætlaður er 26 milljónir krónur.

<>

Knattspyrnudeildin vill byggja mun stærri aðstöðu undir salerni, aðstöðu fyrir veitingasölu og skiptiklefa en gert hafði verið ráð fyrir og óskaði eftir aukafjárveitingu til verksins, en upphafleg kostnaðaráætlun var upp á um 110 milljónir króna.

Bæjarráð hafnaði beiðninni, með atkvæðum meirihlutans, en fulltrúar B, D og G lista lögðu fram eftirfarandi bókanir vegna málsins:

Bókun frá fulltrúa B-lista

Fulltrúi B lista heldur sig við þá ákvörðun sem tekin var í fjárhagsáætlunargerð sl. haust að leggja til 110 milljónir árin 2018 – 2019 svo hægt yrði að byggja aðstöðu við Hópið sem innihéldi salerni, aðstöðu fyrir veitingasölu og skiptiklefa. Hönnunin sem lögð er fyrir bæjarráð er langt umfram það sem rætt var eða í kringum 800 fermetrar og kostnaður yfir 230 milljónir. Þar að auki mun þessi bygging vera dýrari í rekstri en sú sem áætluð er. Á sama tíma og lögbundin verkefni, svo sem fræðslumál mega við því að fá viðbótarhúsnæði og aukna fjármuni til rekstrarins er ekki ásættanlegt að auka byggingarmagn á íþróttasvæðinu og rekstrarkostnað umfram það sem ákveðið var í síðustu fjárhagsáætlun.

Bókun frá fulltrúa D-lista

Fulltrúi D-lista vill að haldið verði áfram með hönnunarvinnu í samræmi við tillögur knattspyrnudeildar. Þó að hönnunarvinnan sé kláruð hljóti að vera hægt að skipta upp verkinu síðar.

Bókun frá fulltrúa G-lista

Fulltrúi G-lista tekur undir með fulltrúa B-lista með frumkostnað á nýju mannvirki knattspyrnudeildarinnar. 26 milljón króna hönnunarkostnaður á byggingu sem er rúmlega 100% umfram þann kostnað sem settur var fram í fjárhagsáætlun er of mikill. Það er ríkur vilji G-listans að koma upp bæði salernisaðstöðu og veitingaaðstöðu ásamt því að settir verði skiptiklefar í aðstöðu knattspyrnudeildarinnar við Hópið. Sú áætlun þarf einfaldlega að vera í samræmi við fyrirliggjandi áætlun.

Heimild: Sudurnes.net