Home Fréttir Í fréttum Óbreytt áform um Landspítala

Óbreytt áform um Landspítala

126
0
Mynd: Freyr Arnarson - RÚV

Landsfundarályktun Sjálfstæðisflokksins um nýtt sjúkrahús breytir engu um þau áform að nýr Landspítali rísi við Hringbraut, segir formaður velferðarnefndar flokksins. Nýr spítali á nýjum stað komi ekki staðinn fyrir Landspítala þó umfang framkvæmdanna verði mögulega minna en nú er áætlað.

<>

Ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins frá því um helgina um sjúkrahúsþjónustu hefur vakið nokkra athygli og hugleiðingar komið fram um hvort flokkurinn sé að breyta um stefnu í byggingu nýs Landspítala.

Í ályktuninni segir: „Sjálfstæðisflokkurinn vill áframhaldandi uppbyggingu Landspítala (LSH). Lokið verði þeirri uppbyggingu á Landspítalalóð sem er komin á framkvæmdastig og tengist núverandi starfsemi. Farið verði tafarlaust í staðarvalsgreiningu fyrir framtíðaruppbyggingu sjúkrahúsþjónustu með öryggi og sterkari samgönguleiðum að leiðarljósi. Þannig verði horft til nýrra og breyttra þarfa, fleiri valkosta fyrir starfsmenn og sjúklinga og hugsanlega annars konar sérhæfingu á næstu áratugum.“

Þorkell Siglaugsson formaður velferðarnefndar Sjálfstæðisflokksins segir þetta ekki stefnubreytingu hjá flokknum. „Þetta hefur engin áhrif á uppbyggingu Landspítalans við Hringbraut eins og hún er hugsuð núna.“

Fyrsti áfanginn felist í sjúkrahótelinu sem nú er í byggingu, meðferðarkjarna sem byrja á að byggja í sumar og rannsóknarhúsi. Þær áætlanir breytist ekki. Aðeins sé verið að hugsa til lengri framtíðar. „Það verði ekki bara eitt sjúkrahús á höfuðborgarsvæðinu og það verði annað sjúkrahús sem þjóni framtíðinni sem er hugsað til annarra þarf og vaxandi þarfa í framtíðinni,“ segir Þorkell.

Hann útilokar ekki að minna verði byggt við Hringbraut eftir að meðferðarkjarni og rannsóknarhús hafa verið reist. „Það getur vel verið vegna þess að menn vita að mikið af húsnæði Landspítalans er úrelt og illa farið.“

Þorkell segir tilgang ályktunarinnar líka að styðja við stefnu Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík um atvinnuuppbyggingu, meðal annars á Keldum. „Í framtíðinni ætlar Reykjavíkurborg að hafa frumkvæði í uppbyggingu í heilbrigðisþjónusu, sjúkrahúsþjónustu, heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu, og þá þarf að horfa á nýjan stað sem getur gegnt því framtíðarhlutverki fyrir höfuðborgarsvæðið.“

Heimild: Ruv.is