Skipulagsstofnun efast um að eðlilegt geti talist að forsætisráðherra sé falið það hlutverk að meta verndargildi byggðar, eins og frumvarp Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra um verndarsvæði í byggð gerir ráð fyrir.
Eðlilegra hljóti að teljast að mat á verndargildi liggi hjá viðkomandi sveitarstjórn og/eða Minjastofnun eins og áður.
„Vandséð er einnig við hvaða aðstæður það getur átt við að ráðherra taki ákvörðun um verndun byggðar án ráðgjafar eða gegn ráðgjöf Minjastofnunar þar um.
Að mati Skipulagsstofnunar getur þetta fyrirkomulag haft í för með sér að tekin sé ákvörðun um verndarsvæði sem byggist ekki á hlutlægum og faglegum grundvelli,“ segir í umsögn stofnunarinnar um frumvarpið.
Á þetta benti Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í gær.
Dagur skrifar: „Verði frumvarpið að lögum hefur lögboðnu samráði, kæruferli og bótaákvæði skipulagslaga verið kippt úr sambandi og stjórnsýsla verndunarmála ferðast 50 ár aftur í tímann.“
Heimild: Vísir.is