Home Fréttir Í fréttum Kranar við sjóndeildarhringinn

Kranar við sjóndeildarhringinn

95
0
©Haraldur Guðjónsson

Kranar sjást víða og byggingar spretta upp. Telja má líklegt að enn meiri þróttur muni færast í byggingariðnað á næstu misserum.

Frá byrjun árs 2014 hefur fasteignaverð hækkað um tæp 13%. Á sama tíma hefur kostnaður við nýbyggingar hækkað um þrjú og hálft prósent. Byggingaverktakar binda vonir við áframhaldandi hækkun á fasteignaverði, í samræmi við spár, og nýbyggingar sjást nú víða um land.

<>

 

Byggingariðnaður í frosti framan af

Sé litið til samspils húsnæðisverð á landinu öllu og byggingavísitölu, sem segir til um kostnað við að byggja nýjar fasteignir, má sjá að þessar stærðir héldust í hendur frá byrjun árs 2010 fram til fyrri hluta 2013. Verktakar héldu þannig að vonum að sér höndum að mestu leyti, enda óvissa um verðbólgu og aðrar mikilvægar efnahagsstærðir á tímabilinu.

 

 

Húsnæðismarkaður tekur kipp

Seinustu misseri hafa verið mun gjöfulli fyrir byggingaaðila heldur en tímabilið á milli 2010 og fyrri hluta 2013. Ástæðan er tvíþætt. Í fyrsta lagi hefur húsnæðisverð tekið kipp. Þannig hefur verð á húsnæði hækkað hlutfallslega jafn mikið frá því um mitt ár 2013 til dagsins í dag og á rúmlega þriggja ára tímabili frá 2010 til fyrri hluta 2013, eða um 20% á hvoru tímabili.

Í öðru lagi hafa aðstæður í efnahagslífi almennt verið hagstæðar frá því um mitt ár 2013 – verðbólga lág, hagvöxtur mikill og gengi íslensku krónunnar tiltölulega stöðugt. Kostnaður við nýbyggingar hefur að sama skapi haldist frekar stöðugur. Frá ársbyrjun 2014 hefur byggingakostnaður einungis hækkað um 3,5%, en fasteignaverð aftur á móti hækkað um tæp 13% eins og fyrr greinir.

 

Spáir enn hærra verði

Fasteignaverð hefur þannig hækkað rúm 9% umfram byggingarkostnað frá byrjun árs 2014. Líklega mun þetta bil breikka enn frekar, gangi spár greiningaraðila um áframhaldandi hækkun fasteignaverðs eftir. Greining Íslandsbanka gerir til dæmis ráð fyrir því að fasteignaverð hækki um 15,5% til ársloka 2017. Þá er til þess að líta að íbúðaskuldir heimila hafa lækkað, sem munu skapa aukið veðrými í fasteignum og tækifæri til skuldsetningar samhliða áframhaldandi hækkun á fasteignaverði.

Hér ber þó að hafa í huga að fjölmargir óvissuþættir eru í spilinu, og því ekki hægt að segja að nokkuð sé fast í hendi. Í fyrsta lagi er óvíst hvaða áhrif afnám gjaldeyrishafta mun hafa – þegar og ef það gerist. Í öðru lagi ríkir óvissa um stöðu á vinnumarkaði vegna kjaradeilna, sem gæti haft mjög neikvæð áhrif á verðbólguþróun. Náist farsæl lending í báðum málum verður þó að telja að líkur standi til þess að gjöful tíð sé í vændum hjá byggingaverktökum.

Heimild: Vb.is