Home Fréttir Í fréttum 1000 milljarða fjárfestingar í mannvirkjum

1000 milljarða fjárfestingar í mannvirkjum

139
0
Mynd: mbl.is/Ó​mar
Gera má ráð fyrir því að fjárfestingar í mannvirkjum hér á landi nemi samtals rúmlega eitt þúsund milljörðum króna næstu þrjú ár. Þetta segir í greiningu Íbúðalánasjóðs og Íslenska byggingavettvangsins. Þrátt fyrir það vex framleiðni í byggingariðnaði hægar en í öðrum greinum og hefur það skaðleg áhrif á íbúðamarkað.

Af áðurnefndum þúsund milljörðum fara tæpir 500 milljarðar í fjárfestingu í atvinnumannvirkjum, 400 milljarðar í íbúðabyggingar og tæpir 200 milljarðar í fjárfestingu í opinberum byggingum. Í tilkynningu frá Íbúðalánasjóði segir að umfang mannvirkjagerðar hér á landi nálgist nú árin fyrir hrun, þó enn sé nokkuð í hápunkt áranna 2006 og 2007.

<>

Nefndarmenn sem unnu greininguna leggja áherslu á að aukin framleiðni í byggingariðnaði sé eitt mikilvægasta verkefni húsnæðismála. Aukin framleiðni í byggingariðnaði myndi stuðla að ódýrari íbúðum og leiða til þess að húsnæðisvandi þjóðarinnar leystist hraðar.

Í tilkynningu frá Íbúðalánasjóði segir að merki séu um vaxtarverki í byggingariðnaði. Skortur hafi myndast á fagfólki í mannvirkjagreinum og færri fyrirtæki en áður vilji fjölga starfsfólki.

Fram kemur einnig að sveiflur í byggingariðnaði hér á landi séu á bilinu tvöfalt til þrefalt meiri en í öðrum greinum. Meðal annars af þeim sökum vaxi framleiðni í byggingariðnaði hægar en í öðrum greinum hagkerfisins. Sveiflur í byggingariðnaði leiði svo til meiri sveiflna á íbúðamarkaði.

Hér má lesa umfjöllun Íbúðalánasjóðs í heild sinni.

Heimild: Ruv.is