Í vikunni var flutt inn í fyrstu tvær íbúðirnar sem PCC Seawiew Residences er að láta reisa fyrir starfsfólk kísilvers PCC á Bakka.
Fjórar íbúðir eru tilbúnar í þeim ellefu parhúsum sem verið er að reisa í Holtahverfi á Húsavík á vegum PCC RS, samtals 22 íbúðir.
Búið er að leigja þær allar og fjölskyldur komnar á biðlista að sögn Bergs Elíasar Ágústssonar hjá PCC RS en eftirspurnin hefur verið mikil.
Og ekki bara frá starfsmönnum PCC á Bakka. “Íbúðir af þessum stærðum virðast vera áhugaverðar fyrir marga og var áhuginn ekki einskorðaður við starfsmenn PCC” sagði Bergur Elías en minni íbúðirnar eru tæplega 77 fermetrar að stærð og þær stærri 90 og eru með svalir.
Eftir er að ganga frá lóðum við húsin sem og götum í hverfinu en það verður gert í samstarfi við sveitarfélagið þegar betur viðrar til slíkra verka.

Flutt var inn í Lágholt 1-3 í vikunni.

Bergur Elías Ágústsson hjá PCC RS klippti á borða.

Fyrstu fjórar íbúðirnar eru tilbúnar og fjórar aðrar verða tilbúnar í næstu viku.

Sofie Ose, Felix Ose og Simen Frøisland frá Noregi eru meðal fyrstu íbúa í leiguíbúðum PCC RS í Holtahverfi.
Heimild: 640.is