Home Fréttir Í fréttum Fá ekki lóðir undir ódýrar íbúðir

Fá ekki lóðir undir ódýrar íbúðir

247
0
Guðbrandur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Heimavalla telur að hægt sé að byggja einingahús með 20% minni tilkostnaði. Mynd: Vb.is/Haraldur Guðjónsson

Heimavellir vilja byggja ódýrar íbúðir úr einingum en fá ekki lóðir á höfuðborgarsvæðinu undir slíka byggð.

<>

Leigufélagið Heimavellir vill semja við byggingaverktaka um að reisa ódýrar og hagkvæmar íbúðir úr fjöldaframleiddum einingum. Heimavellir hafa rætt við danska framleiðendur og geta fengið pláss í framleiðslu í maí eða júní þessa árs fyrir 30-40 íbúðir sem tilraunaverkefni og gætu þær verið settar á grunna í haust. Ef vel gengur telja forsvarsmenn Heimavalla forsendur fyrir 300-400 íbúðum til viðbótar á næstu 2-3 árum.

Guðbrandur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Heimavalla, segir að til þess að koma einingaverkefninu sem fyrst af stað sé líklegt að uppbygging hefjist á Reykjanesskaganum þótt helst hefði hann viljað setja samskonar verkefni af stað í Reykjavík eða sveitarfélögunum í kring. Hins vegar sé nær ómögulegt að fá lóðir undir ódýrar og hagkvæmar íbúðir þar í augnablikinu.

„Við þurfum að byggja 17.500 íbúðir á næstu þremur árum og ég held að það sé spennandi að fara nýjar leiðir. Hluti af því sem gæti komið inn á markaðinn eru nýjar lausnir. Við sjáum það öll að ástæðan fyrir því að allir bílar í dag eru fjöldaframleiddir er sú að það er einfaldlega ódýrara að fjöldaframleiða en ekki,“ segir Guðbrandur en Heimavellir hafa verið að vinna að hugmyndunum með dönskum arkitekt og arkitektastofunni Glámu Kím en hann segir dönsk einingahús hafa verið í miklum vexti þar í landi.

„Menn hafa verið að framleiða mjög mikið magn af einingahúsum inn í dönsk leigufélög, af ýmsum gerðum má segja. Við höfum verið að ræða við einn af þessum aðilum sem hefur verið að framleiða inn á þennan markað um samstarf um einingar sem gætu hentað til uppbyggingar hér á landi. Við höfum fengið vilyrði fyrir framleiðslulotu upp á 30-40 einingar í maí eða júní og þær gætu þá verið tilbúnar til þess að setja niður á grunna í haust,“ segir Guðbrandur og telur að hægt sé að ná töluverðri kostnaðarlækkun. „Maður er með væntingar um að við séum að sjá kannski um 20% lægri byggingakostnað en það sem gerist almennt.“

Hann segir nauðsynlegt að sveitarstjórnarmenn á höfuðborgarsvæðinu hugi að því að koma á markað fleiri ódýrum lóðum.

„Það er margoft búið að benda á að það vantar auðvitað fleiri lóðir, ódýrar lóðir, sem eru kannski ekki búnar að fara í gegnum hendurnar á mörgum sem allir þurfa sína framlegð. Á endanum verða þetta frekar dýrar lóðir og þar af leiðandi hækkar íbúðaverðið. Sjáðu til dæmis Helgafellslandið í Mosfellsbæ, þær lóðir voru seldar á hagstæðu verði. Fyrir vikið byggðist hverfið upp mjög hratt og vel. Fólk er mjög ánægt þarna og þetta er að klárast kannski á næsta ári og þá er þetta búið að vera þrjú ár í byggingu. Allt þetta hverfi. Það er bara þörf á ódýrari íbúð-um en við höfum verið að framleiða. Ódýrari íbúðir eru ávísun á ódýrari leigu. Þá þarf helst að fá lóðir frá sveitarfélögum þar sem aðeins eru greidd gatnagerðar-gjöld og eftir atvikum innviðagjöld,“ segir hann.