Home Fréttir Í fréttum Enginn lagði til að verksmiðja Silicor skyldi háð mati á umhverfisáhrifum

Enginn lagði til að verksmiðja Silicor skyldi háð mati á umhverfisáhrifum

100
0
Skúli Mogensen

Það er mat Skipulagsstofnunar að starfsemi Silicor Materials í Hvalfirði hafi óveruleg áhrif á loftgæði og gæði yfirborðsvatns. Enginn lagði til að starfsemin skyldi háð mati á umhverfisáhrifum.

<>

Skúli Mogensen, forstjóri WOW Air, lýsti á dögunum óánægju sinni með fyrirhugaða verksmiðju á Grundartanga og spurði hvernig í ósköpunum Skipulagsstofnun hafi samþykkt slíka framkvæmd án umhverfismat. Haraldur Sigurðsson, eldfjallafræðingur, hefur einnig verið gagnrýninn á verksmiðjuna og fullyrt að framleiðsla kísilsólarsella sé afar mengandi.

Á vef Skipulagsstofnunar er rakið að Silicor Materials hafi tilkynnt framkvæmdina til Skipulagsstofnunar í mars 2014. Áður en stofnunin tók ákvörðun leitaði hún umsagna leyfisveitenda og fleiri opinberra stofnana.

Engin þeirra lagði til að starfsemin skyldi háð mati á umhverfisáhrifum. Ákvörðun Skipulagsstofnunar um það hvort þörf væri á umhverfismati var kynnt í apríl 2014. Niðurstaða stofnunarinnar var að framkvæmdin skyldi ekki háð umhverfismati.

”Skipulagsstofnun telur að áhrif starfseminnar á loftgæði og gæði yfirborðsvatns verði óveruleg. Því veldur fyrst og fremst að unnið er að því að fullhreinsa hráefni sem er mjög hreint þegar það er tekið til vinnslu og framleiðslan felur ekki í sér útblástur eða útskolun mengunarefna, heldur er unnið með lokaðan framleiðsluferil þar sem öll framleiðslan og hliðarafurðir nýtast sem söluvara. Starfsemin felur hvorki í sér útblástur af flúor né brennisteinsdíoxíði og hefur því engin áhrif á stærð þynningarsvæðis fyrir iðjuverin á Grundartanga eða aukið mengunarálag innan þess. Sú mengun sem berst frá starfseminni til andrúmslofts er ryk en miðað við framlagðar upplýsingar um magn og samsetningu þess telur Skipulagsstofnun að áhrif af völdum þess verði óveruleg,“

segir í áliti Skipulagsstofnunar. Álitið byggði ákvörðun sína á greinargerð Silicor Materials og umsögnum fagstofnana. Segir enn fremur að „sú framleiðsluaðferð, notkun hættulegra efna og umhverfisáhrif sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum að undarnförnu í tengslum við áform Silicor Materials á Grundartanga er ekki í samræmi við þá starfsemi sem tilkynnt var til Skipulagsstofnunar og stofnunin tók afstöðu til í ákvörðun sinni.“

Heimild: Eyjan.is