Home Fréttir Í fréttum Byggingartími fokheldra fjölbýlishúsa á þéttingarreitum um 18 mánuðir að meðaltali

Byggingartími fokheldra fjölbýlishúsa á þéttingarreitum um 18 mánuðir að meðaltali

114
0

Samkvæmt greiningu byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar á byggingarhraða, tekur um eitt og hálft ár að byggja fokhelt fjölbýlishús á þéttingareitum, þar sem byggð er þéttari fyrir. Um 2.3 ár tekur að gera fullgerða íbúðir á þéttingarsvæðum. Gerð var greining á íbúðabyggingum á tímabilinu 2013 – 2017 sem byggði á málaskrá byggingarfulltrúa og miðaðist við tímasetningu á útgefnu byggingarleyfi og tímasetningu á skráðu fokheldi og lokaúttekt. Þetta kemur fram á vef Reykjavíkurborgar.

<>

Þar segir einnig að um 3600 íbúðir séu á framkvæmdarstigi og 3800 með samþykkt deiliskipulag sem tilbúnar séu til uppbyggingar. Aðrar 7100 íbúðir eru í deiliskipulagsferli og 4800 á skilgreindum þróunarsvæðum. Gefin voru út byggingarleyfi fyrir rúmlega 1000 íbúðum árið 2017.

Samkvæmt mati Íbúðarlánasjóðs, er eftirspurnin þó mun mun meiri en framboðið, því um 17.000 íbúðir þurfa að rísa á þessu ári og því næsta, til þess að mæta uppsöfnuðum skorti og undirliggjandi þörf á húsnæði, en aðeins 1500 íbúðir voru byggðar á árinu 2016.

 

Á vef Reykjavíkurborgar segir:

Byggingarfulltrúi Reykjavíkurborgar hefur látið gera greiningu og samanburð á byggingarhraða á þéttingarreitum annars vegar og óbyggðu landi hins vegar. Greiningin leiðir í ljós að hraðar gengur að byggja á þéttingarreitum í Reykjavík. Ástæðan er sú að oft eru stórir og öflugir verktakar að verki og vel gengur að fjármagna og selja íbúðarhúsnæði á þéttingarreitum.

Gerð var greining á íbúðabyggingum á tímabilinu 2013 – 2017 sem byggði á málaskrá byggingarfulltrúa og miðaðist við tímasetningu á útgefnu byggingarleyfi og tímasetningu á skráðu fokheldi og lokaúttekt.

Einkum var horft á byggingarhraða að fokheldi byggingar. Ef eingöngu er litið til uppbyggingu fjölbýlis er meðalbyggingartími að fokheldi á þéttingarsvæðum 1,6 ár en 1,7 ár á byggingarsvæðum í úthverfum. Hér eru lögð til grundvallar 93 verkefni sem voru í gangi á umræddu tímabili. Ef horft er á öll byggingarverkefnin sem voru til skoðunar, alls 157, bæði fjölbýli og sérbýli, þá er meðalbyggingartíminn um 1,7 ár í úthverfum en 1,5 á þéttingarreitum.

Ekki var greinanlegur munur á byggingarhraða þéttingarverkefna eftir því hvort þau voru austan eða vestan Elliðaáa. Meðalbyggingartími fullgerðra íbúða er 2,3 ár á þéttingarsvæðum og mætti ætla að það sé ekki fjarri meðaltali undanfarinna ár.

Um 90% nýrra íbúða í Reykjavík eru nú byggðar innan þéttbýlismarka og falla því undir þéttingu. Byggingarreitir innan núverandi byggðar geta hins vegar verið misauðveldir í uppbyggingu. Þéttingin getur verið innfylling í mjög þéttri borgarbyggð, en líka uppbygging á opnu landi sem lengi hefur staðið vannýtt.

Markvissar áætlanir borgarinnar um uppbyggingu og úthlutanir til húsnæðisfélaga og byggingaraðila, hafa gert það að verkum að allt stefnir í metuppbyggingu í Reykjavík í sögulegu ljósi. Í borginni eru nú um 3.600 íbúðir á framkvæmdastigi og 3.800 íbúðir eru með samþykkt deiliskipulag og því tilbúnar til uppbyggingar. 7.100 íbúðir eru í deiliskipulagsferli og 4.800 íbúðir á skilgreindum þróunarsvæðum. Þá voru gefin út byggingarleyfi árið 2017 fyrir meira en 1.000 íbúðum.

Heimild: Eyjan.is