Home Fréttir Í fréttum 22 milljarða uppbygging á Kirkjusandi að byrja

22 milljarða uppbygging á Kirkjusandi að byrja

280
0
Mynd: Kjarninn.is
Nýtt uppbyggingarfélag ætlar að ráðast í 22 milljarða framkvæmdir á Kirkjusandi. Gert er ráð fyrir að reisa 150 íbúðir, skrifstofuhúsnæði og hótel. Fjármögnun verkefnisins er lokið, en lífeyrissjóðir og tryggingafélög eru á meðal fjárfesta. Gamlar höfuðstöðvar Íslandsbanka verða að öllum líkindum rifnar.

Á stóru svæði við Kirkjusand í Reykjavík voru til langs tíma bæði höfuðstöðvar Íslandsbanka og starfsemi Strætós. Nokkuð er síðan Strætó flutti starfsemi sína af svæðinu, og Íslandsbanki flutti höfuðstöðvar sínar fyrir rúmu ári, eftir að mygla uppgötvaðist í byggingunni. Í mars í fyrra skrifuðu svo Reykjavíkurborg og Íslandsbanki undir samning um uppbyggingu á Kirkjusandi. Nú hafa Íslandssjóðir sem er félag í eigu Íslandsbanka keypt lóðir á svæðinu, fengið fjölda fjárfesta til liðs við sig og ætlar að ráðast í mikla uppbyggingu.

<>

„Og hér munu rísa á vegum uppbyggingarfélagsins 105 miðborg um 150 íbúðir, skrifstofuhúsnæði, matvöruverslun og fleira spennandi. Þannig að þetta er svona fjögurra til fimm ára verkefni sem við erum að hefja núna á næstunni,“ segir Kjartan Smári Höskuldsson, framkvæmdastjóri Íslandssjóða.

Flytja inn 2020

Deiliskipulag fyrir hverfið var samþykkt árið 2016 og þar er gert ráð fyrir 300 íbúðum. 105 miðborg, sem er stýrt af Íslandssjóðum, reisir 150 íbúðir og Reykjavíkurborg ráðstafar öðrum 150. Alls ætlar 105 miðborg að reisa tæpa 42.000 fermetra af húsnæði. Kjartan Smári segir að íbúðirnar verði af ýmsum gerðum – allt frá hefðbundnum til dýrari íbúða. Þá er gert ráð fyrir leikskóla í nýja hverfinu.

Og svo er stefnt að því að hafa hérna hótel?

„Já það er eitt af þessum áformum. Það er leyfi til að byggja hótel hérna í framtíðinni. Það er ekki fyrr en á seinni stigum verkefnisins sem það myndi gerast, eftir svona fjögur til fimm ár, og auðvitað tekur það mið af markaðsaðstæðum þá.“

Kjartan Smári segir að verkefnið sé fjármagnað af breiðum hópi fjárfesta, meðal annars lífeyrissjóðum, tryggingafélögum og einkafjárfestum. Fjármögnun er lokið, en áætlaður heildarkostnaður er 22 milljarðar króna. Íslenskir aðalverktakar sjá um verkið. Vonast er til að fyrstu íbúar geti flutt inn vorið 2020.

„Við byrjum á íbúðahlutanum þannig að við erum að fara að reisa tvo íbúðakjarna í fyrsta áfanga verkefnisins. Það er vöntun á íbúðum í dag og við erum að bregðast við því líka með þessu.“

Það kom upp slæm mygla í gömlu höfuðstöðvum Íslandsbanka, er gert ráð fyrir því húsi í þessum áformum?

„Nei. Gamla bankahúsið, eins og þú segir, er mikið skemmt. Síðan Íslandsbanki flutti úr húsinu er búið að rannsaka það mikið. Niðurstöðurnar eru alvarlegar. Þetta lítur ekki vel út.“

Bendir allt til þess að húsið verði rifið?

„Það er kannski ekki ólíklegt. En það liggur ekki fyrir á þessum tímapunkti,“ segir Kjartan Smári.
Heimild: Ruv.is