Home Fréttir Í fréttum Sprengja sílóin líklega aftur á næstunni

Sprengja sílóin líklega aftur á næstunni

105
0
Mynd: RÚV
Verið er að meta næstu skref við niðurrif á fjórum sílóum við Sementsverksmiðjuna á Akranesi. Ekki tókst að sprengja þau niður 30. desember síðastliðinn og féllu þau til hliðar en ekki til jarðar.

Fyrirtækið Work North tók að sér niðurrif sílóanna fyrir Akraneskaupstað. „Þetta er ein af þeim sviðsmyndum sem við reiknuðum með eftir þessa sprengingu. Við erum núna að fara yfir málið með verkkaupa,“ segir Þorsteinn Auðunn Pétursson, framkvæmdastjóri og eigandi Work North. Hann á von á því að gerð verði önnur tilraun til að sprengja sílóin á næstu dögum.

<>

Þorsteinn segir að ekki hafi verið vitað nákvæmlega hve mikið magn steypu og járns er í sílóunum. „Það er ofboðslegt magn steypu og járns í botninum. Við vildum frekar gera þetta eins og við gerðum til að átta okkur á stöðunni.“ Hann leggur áherslu á að svæðið sé girt af og að ekki sé hætta á því að sílóin falli.

Faxabraut, götunni fyrir neðan Sementsverksmiðjuna, var lokað fyrir allri umferð, bæði gangandi og akandi á föstudag. Að sögn Sævars Freys Þráinssonar, bæjarstjóra Akraness, hefur því ástandi ekki verið aflétt. Það verði ekki gert fyrr en búið verði að klára niðurrifið. Á meðan fólk fari ekki um Faxabrautina sé ekki hætta á ferðum. Hann segir að bæjarfélagið upplýsi um framhald verksins á næstu dögum. Nú sé verið að undirbúa næstu skref.

Greint var frá því í frétt RÚV 30. desember að bæjaryfirvöldum á Akranesi hafi ekki verið tilkynnt um sprengingin yrði þann dag og því hafi ekki verið send út almenn tilkynning til bæjarbúa. Þorsteinn segir að bæjarfélagið hafi verið látið vita að til stæði að sprengja. Þá fékk Lögreglan á Vesturlandi tilkynningu um sprenginguna og lét íbúa í næsta nágrenni vita. Þorsteinn á von á því að sílóin verði sprengd að nýju á næstunni. Þá verði send út tilkynning til bæjarbúa á Akranesi.

Heimild: Ruv.is