Home Fréttir Í fréttum Niðurstöður í samkeppni um rammaskipulag Vífilsstaðalands

Niðurstöður í samkeppni um rammaskipulag Vífilsstaðalands

150
0
Mynd: Garðabær

Fimmtudaginn 21. desember voru kynnt úrslit í framkvæmdasamkeppni um rammaskipulag Vífilsstaðalands í Garðabæ. Garðabær efndi til samkeppninnar á þessu ári í samvinnu við Arkitektafélag Íslands. Svæðið sem rammaskipulagið mun ná til er um 145 ha að stærð.
Markmið bæjarstjórnar Garðabæjar með samkeppninni og áframhaldandi skipulagsvinnu er að móta raunhæft rammaskipulag um uppbyggingu, sem fljótlega er hægt að byrja að vinna eftir og því gert ráð fyrir að deiliskipulagsferli 1. áfanga geti hafist sem verður íþróttasvæði í Vetrarmýri.

<>

Í nýsamþykktu aðalskipulagi Garðabæjar er sett fram stefnumörkun um helstu landnotkunarflokka innan svæðisins, s.s. íbúðabyggð, íþróttasvæði, golfvöll, verslun og þjónustu, en viðfangsefni samkeppninnar er að flétta saman þessa ólíku landnotkun og laða fram heildarlausn fyrir svæðið allt.

Fjórar verðlaunatillögur

Alls bárust fjórar tillögur í samkeppninni og Sigurður Guðmundsson formaður dómnefndar og formaður skipulagsnefndar Garðabæjar tilkynnti um niðurstöðu dómnefndar við athöfn sem fór fram í anddyri íþróttamiðstöðvarinnar Ásgarðs. Um leið var þar opnuð sýning á innsendum tillögum sem mun standa til febrúarloka. Auk þess verða tillögur hengdar upp í anddyri Golfskála GKG við Vífilsstaðaveg

Í fyrsta sæti var tillaga Arkitektastofunnar Batterísins, Landlagsarkitektastofunnar Landslags og Verkfræðistofunnar Eflu. Verðlaun fyrir fyrsta sæti voru 5 milljónir kr.

Tvær tillögur deildu með sér öðru sæti en það voru annarsvegar tillaga Teiknistofu arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar og tillaga Hlínar Sverrisdóttur landlagsarkitekts og Ingu Sigurjónsdóttur arkitekts.  Verðlaun fyrir tillögur í öðru sæti voru 2 milljónir kr á hvora tillögu. Í þriðja sæti var tillaga arkitektastofunnar Sei sem hlaut að verðlaunum 1 milljón kr.

Að mati dómnefndar leysa allar tillögurnar þau úrlausnarefni sem sett voru fram í keppnislýsingu. Nokkur munur er á lausnum og er ljóst að engin ein tillaga leysir öll helstu úrlausnarefnin í heild sinni en í þeim koma þó fram ýmsar lausnir sem horfa má til við endanlega gerð rammaskipulags.

Niðurstöður dómnefndar (pdf-skjal)

,,Heilbrigð sál í hraustum líkama“

Vinningstillagan ber yfirskriftina „Heilbrigð sál í hraustum líkama“ og er þar vísað til þess að útivist í hreinu lofti og náttúrulegu umhverfi gegndi mikilvægu hlutverki í lækningaáherslum Vífilsstaðaspítala á fyrri hluta síðustu aldar. En í nútímasamfélaginu er þörfin fyrir útiveru í vistlegu umhverfi ekki síður mikilvæg fyrir líkama og sál. Meginmarkmið höfunda er að móta heilsteypt skipulag vistlegrar byggðar, fjölbreyttrar íþróttastarfsemi og almennrar útivistar í sátt við náttúru svæðisins.
Dómnefnd segir í umsögn sinni um tillöguna að hún sé vel framsett og leysir vel þau viðfangsefni sem lögð voru fyrir í keppnislýsingu.  Tillögunni tekst að mynda áhugavert miðsvæði með góðar tengingar við nærliggjandi hverfi.  Gönguás frá Vífilsstöðum að Hnoðraholti um miðkjarna er tvímælalaust sterkasti hluti tillögunnar.  Ásinn, ásamt öðrum þverásum, tengir gangandi og hjólandi umferð á skilvirkan hátt við alla hverfishluta að miðju kjarnans í Vetrarmýri þar sem íþrótta- og skólasvæði verður staðsett.  Sögulegu hlutverki Vífilsstaða eru gerð góð skil og á sannfærandi hátt er sýnt fram á hvernig Vífilsstaðir geta öðlast nýjan sess sem þungamiðja menningarstarfsemi í þessum nýja bæjarhluta. Færsla Elliðavatnsvegar frá vatninu styrkir þessa nálgun og byggðin austan við Vífilsstaði nær góðum tengslum við náttúruna og vatnið.

Skipulagsuppdráttur – 1. sæti:

Vinningstillaga 1. sæti - rammaskipulag Vífilsstaðaland

Miðsvæði vinningstillögu í 1. sæti:
Vinningstillaga 1. sæti - miðsvæði Vífilsstaðaland

 Uppbygging Vífilsstaðahverfis

Í kjölfar samkeppninnar munu vinningshafar nú móta tillögu að rammaskipulagi svæðisins í samvinnu við bæjaryfirvöld í Garðabæ. Eins og fram kemur í umsögn dómnefndar þá eru ýmsir þættir í öðrum tillögum sem horfa má til við mótun rammaskipulagsins.
Uppbygging Vífilsstaðahverfis er hafin. Á næstu árum mun þar rísa glæsilegt íbúðahverfi sem hringar sig um golfvöll, skólasvæði og íþróttasvæði og við jaðar friðlýstra svæða og skógræktarsvæða.  Byggðin verður um leið miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu með góðar tengingar við megin samgönguæðar.

Heimild: Garðabær