Home Fréttir Í fréttum Leki og rakaskemmdir í húsnæði Háskólans á Akureyri

Leki og rakaskemmdir í húsnæði Háskólans á Akureyri

172
0
Mynd: Háskólinn á Akureyri
Ráðast þarf í kostnaðarsamar endurbætur á húsnæði Háskólans á Akureyri vegna leka og rakaskemmda. Hluti húsnæðisins verður rýmdur í janúar.

Hátt í helmingur húsnæðis skólans var byggt í kringum 1970 og hefur lengi verið talin þörf á viðhaldi. Nýlega var gerð úttekt á húsnæðinu og leiddi hún í ljós að ástandið er mun verra en áður var talið.

<>

„Það eru komin upp lekavandamál sem sum staðar leiða af sér raka. Það er komin einhver sýking, ekki bein sveppasýking sem veldur óþægindum, en þó þannig að við þurfum að hugsa um það hvernig við viljum endurbæta húsin,“ segir Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri.

Rýma hluta húsnæðisins eftir áramót

Ástandið er mis slæmt og aðeins bundið við eldri byggingar skólans, sem eru aðallega nýttar undir skrifstofur starfsfólks. Ákveðið hefur verið að rýma eitt 100 fermetra hús strax í janúar, þar sem skemmdirnar eru mestar. Eyjólfur segir að vandamálin megi rekja til hönnunar, mikið er um flöt þök og frágangur þess eðlis að vatn safnist fyrir. Þá hafi umfangsmikið viðhald setið á hakanum eftir hrun.

Bregðast við áður en vandamálið verður of stórt

Enn hefur enginn kvartað undan óþægindum sem rekja má til ástands húsnæðisins en Eyjólfur segir brýnt að bregðast við áður en slíkt gerir vart við sig. „Við höfum af því áhyggjur að ef ekkert yrði að gert þá hefði það áhrif á starfsemina. Ég legg ríka áherslu á að við erum hér að bregðast við áður en vandamálið verður of stórt,“ segir hann.

Framundan eru því miklar framkvæmdir, sem er áætlað að taki um tvö ár, og felast einkum í því að setja upp loftræstingu og lagfæra þök. „Svona fyrstu tölur benda til að þetta sé kostnaður í kringum 120 til 140 milljónir en það eru bara fyrstu tölur,“ segir Eyjólfur. Þetta er nokkuð högg fyrir skólann og ekki ljóst hvernig framkvæmdirnar verða fjármagnaðar. „Þetta tekur á, við höfum ekki staðfest enn þá hvernig tekið verður á þessu og það er verið að ræða það við stjórnvöld hvernig svona viðhaldsverkefni eru fjármögnuð,“ segir hann.

Heimild: Ruv.is