Home Fréttir Í fréttum Nýju íbúðirnar eru stærri og dýrari

Nýju íbúðirnar eru stærri og dýrari

74
0
Mynd: Vísir/Vilhelm

„Nýju íbúðirnar sem eru að koma inn á markaðinn eru að meðaltali bæði stærri og dýrari og munu stuðla að því að fasteignaverð lækki ekki. Það er því ekki verið að bjóða rétta vöru því eftirspurnin er mest eftir einföldum, litlum og ódýrum íbúðum,“ segir Ari Skúlason, hagfræðingur hjá Landsbankanum, sem mun í dag fjalla um áhrif fasteignaverðs á stöðugleikann í efnahagslífinu á Hagspárfundi bankans í Hörpu.

<>
Ari Skúlason, hagfræðingur hjá Landsbankanum.

„Það er greinilegt að það er verið að byggja núna stærri íbúðir en meðaltalið af því sem verið er að selja af eldra. Verðin eru hærri og því ekki nógu mikið spáð í hvað vantar. Meðalíbúðin nýja er miklu stærri en sú gamla sem verið er að selja. Að hluta til borgar sig ekki að byggja minni íbúðirnar og svo er hluti af þessu þétting byggðar þar sem menn eru að byggja á dýrari hátt. Umhverfið, lóðirnar og framkvæmdin eru þá dýrari. Væntanlega er þetta þannig að þú getir ekki byggt litlar og ódýrar og hagkvæmar íbúðir nema þú fáir lóðir á lágu verði einhvers staðar í útjaðri byggðar. Þú gerir það ekki í miðborgum þar sem allt er dýrara.

Það er það sem stendur upp úr þessa stundina en einnig að grunnur markaðarins er traustari núna en á árunum fyrir hrun þrátt fyrir að verðin hafi hækkað þetta mikið. Þá er ekki ástæða til að hafa áhyggjur.“

Ari bendir á að fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 12,5 prósent frá október 2016 og til aprílmánaðar. Næstu sex mánuðina á eftir hafi hækkunin aftur á móti numið 4,5 prósentum. Frá miðju ári 2016 hafi verðþróunin því verið „út úr korti“ en nú hafi markaðurinn róast.

„Við vorum lengi að sjá tíu prósenta árshækkun í fjölbýli en svo rýkur hún upp seinni hluta ársins í fyrra og fer upp í 20 prósent í vor. Síðan hefur hægt verulega á. Þetta er hrein og klár vísbending um að verðin séu að komast inn í annan fasa. Þau eru að hækka minna en áður og við trúum því reyndar að það verði þannig. Markaðurinn er augljóslega heilbrigðari nú en fyrir tíu árum. Húsnæðisverðin hanga miklu meira í þróun atvinnutekna og kaupmáttar launa. Hér áður fyrr var verðið langt fyrir ofan tekjurnar. Svo sá maður á árunum 2001-2007 að útlán til heimila fylgdu húsnæðisverðinu vel eftir og fóru fram úr því sem er allt önnur mynd en núna. Núna hafa skuldir heimilanna minnkað og augljóst að þessi hækkun og kaup eru fjármögnuð öðruvísi. Tekjuaukinn núna er miklu heilbrigðari og byggir á betri kaupmætti, en áður fyrr var þetta tekjuauki sem var lánsfjármagnaður og allt kerfið fjármagnað með erlendum lánum sem stóð aldrei undir sér. Staðan er því allt öðruvísi núna.“

Hagfræðideild Landsbankans spáir nú 19 prósenta hækkun fasteignaverðs í ár. Á næsta ári verði hún upp á 8,5 prósent, sjö prósent árið 2019 og sex á árinu 2020. Fleiri íbúðir koma nú inn á markaðinn og staldra lengur við og fasteignaviðskiptum fer fækkandi.

„Það þyrfti að fá inn útlánaukningu og verulegar launahækkanir, vinnumarkaði sem er allt öðruvísi en hann hefur verið upp á síðkastið, til að þetta fari aftur á sama stað. Ég hugsa að það gerist ekki og að þetta verði rólegra. Verðin munu þó ekki lækka því að nýja húsnæðið sem kemur inn tryggir að það verði spenna upp á við. Þó að verðin hafi hækkað svona mikið erum við ekki að fara að sjá lækkanir.“

Ari segir að lokum að það sé ótrúleg staða að hér skorti haldbærar upplýsingar um byggingarstarfsemi og þá hversu mikið verktakar eru að byggja af nýju húsnæði og hvar.

„Ég er búinn að vera í þessum bransa í tólf ár og þegar ég byrjaði rakst ég alltaf á það að engar upplýsingar væru til um hvað væri verið að byggja mikið. Síðan eru liðin öll þessi ár og ekkert hefur breyst. Það veit enginn neitt um þetta og það að við þurfum að byggja á upplýsingum frá Samtökum iðnaðarins, sem keyra um og telja alveg eins og við gerðum í Landsbankanum fyrir tíu árum, er alveg ótrúlegt miðað við þróun samfélagsins. Sveitarfélögin eru ekki að gefa frá sér upplýsingarnar og það er vandamálið.“

Heimild: Visir.is