Home Fréttir Í fréttum Velta í byggingarstarfsemi eykst um 20%

Velta í byggingarstarfsemi eykst um 20%

82
0
Mynd: mbl.is/Ó​mar Óskars­son

Nærri fimmtungsaukning veltu var í byggingarstarfsemi sem og útleigu bifreiða á einu ári en samdráttur í sjávarútvegi.

<>

Velta í virðisaukaskatskyldri starfsemi jókst um 1,4% í júlí og ágústmánuði miðað við sama tímabil í fyrra, en ef horft er á allt tímabilið frá því í september 2016 til ágúst 2017 nemur aukningin 1,7% að því er Hagstofan greinir frá.

Inni í þeim tölum er ekki starfsemi tengd farþegaflutningum og ferðaskrifstofum, enda voru þau ekki virðisaukaskattskyld fyrr en í ársbyrjun ársins 2016. Einnig er starfsemi í lyfjaframleiðslu undanskilin því verið er að fara yfir tölur tengd þeirri atvinnugrein.

Þegar tölurnar eru skoðaðar nánar eftir atvinnugreinum sést að velta í fiskveiðum, fiskeldi og vinnslu sjávarafurða hefur dregist saman um 16,6%, meðan velta í heild- og umboðsverslun með fisk hefur dregist saman um 17,4%.

Aukningin nálega þrefaldast

Á sama tíma hefur velta í byggingarstarfsemi, mannvirkjagerð, námugreftri og vinnslu hráefna í jörðu aukist um 19,5% og velta í leigu á bifreiðum og léttum vélknúnum ökutækjum hefur aukist um 18,9%. Einnig hefur verið talsverð aukning í veltu í rekstri gististaða og veitingarekstri, eða 16,6% en veltuaukningin í olíuverslun nam 8,0%.

Aðrar breytingar eru minni, fyrir utan að liðurinn erlendir aðilar sem selja rafræna þjónustu var með veltuaukningu sem nam 171,5%, en spurt nánar út í þessa miklu hækkun segir Hagstofan að inn í þessu sé alls konar hýsing, hugbúnaður, sem og efnisveituþjónusta líkt og Netflix og annað. Mögulegt sé að þessi aukning sé að einhverju leiti til kominn því áður hafi menn ekki þekkt skyldur sínar um greiðslu virðisaukaskatts.

Heimild: Vb.is