Home Fréttir Í fréttum Til að gera fráveitukerfi landsins viðunandi þarf 50-80 milljarða fjárfestingu

Til að gera fráveitukerfi landsins viðunandi þarf 50-80 milljarða fjárfestingu

145
0
Við Ægisíðu. Mynd: RÚV - Grímur Jón Sigurðsson
Til að gera fráveitukerfi landsins viðunandi þarf 50-80 milljarða fjárfestingu. Margar skólplagnir í þéttbýlum eru upprunalegar og ónýtar. Ísland kemur illa út í þegar kemur að frárennslismálum samanborið við aðrar þjóðir og mengunin frá lögnunum mælist hér meiri en í milljónasamfélögum.

 

<>

Á fundi Samorku um frárennslismál kom meðal annars fram að fráveitukerfin hér á landi eru almennt illa á sig komin. Ráðist var í endurnýjun hluta þeirra fyrir hrun og hefur nú elsti hluti höfuðborgarsvæðisins verið lagaður en síðan þá hefur lítið verið endurnýjað. Afar dýrt er að sinna ekki viðhaldi og láta lagnir hrynja saman.

Reynir Sævarsson, er fagstjóri fráveitu hjá Eflu verkfræðistofu.

„Þetta eldist og tærist og slitnar og víða eru byggðirnar orðnar býsna gamlar og lagnirnar eru jafngamlar. Þegar að þær eru orðnar 60 ára gamlar þá eru þær orðnar ónýtar.“

Búið er að endurnýja með fóðrun um 100 km af þeim tæplega 1.000 km sem fráveitukerfi Reykjavíkur telur, eða einungis 10% af heildarlengd þess.

Ísland kemur illa út úr alþjóðlegum samanburði. Fáar þjóðir hreinsi skólpið eins illa og við. Víðast hvar um landið rennur skólp óhreinsað í sjóinn. 77% þjóðarinnar eru tengd skólphreinsistöðvum sem svarar til höfuðborgarsvæðisins. Annars staðar er skólp ekki hreinsað. Hlutfall íbúa með skólphreinsun fór úr 10% í 70% á árunum 1997-2005 en lítið hefur bæst við síðan þá.

Skólp er til að mynda ekki hreinsað frá stórum byggðum eins og Akureyri, Egilstöðum og Selfossi.

„Sem betur fer eru áætlanir um að framkvæma. Margar af stærri byggðunum eru að fara að framkvæma og það er jákvætt.“

Nú stendur yfir viðgerð á dælustöð við Faxaskjól í Reykjavík en hún hófst í gær. Á meðan á henni stendur verður skólpi sem kemur úr meirihluta höfuðborgarsvæðisins dælt óhreinsuðu í sjóinn. 750 lítrum á sekúndu. Áætlað er að viðgerðin taki um 10 sólahringa. Þetta er það sama og gerðist um mitt síðasta sumar og flestir muna eftir, munurinn nú er sá að Heilbrigðiseftirlitið hefur komið upp skiltum á staðnum og varar fólk og dýraeigendur við að vera í fjörunni meðan á viðgerðinni stendur.

Alvarlegasta umhverfisógn sem stafar af fráveitum er þó ekki lífrænn úrgangur manna og dýra, heldur, plastögnum, þungmálmum  og ruslinu sem fólk hendir í klósettið en á að fara í ruslið.

Íris Þórarinsdóttir er tæknistjóri fráveitu hjá Veitum.

„Má ég ekki bara hvetja fólk til að huga sérstaklega vel að þessu næstu 10 daga og þá kannski verður það bara að vana og það hættir bara alveg að henda rusli í klósettið.“

Heimild: Ruv.is