Home Fréttir Í fréttum 450 milljónum varið í endurbætur á hverfum í Reykjavík

450 milljónum varið í endurbætur á hverfum í Reykjavík

73
0
Vaðlaug við Grafarvogslaug, göngustígur við Rauðavatn og endurbætur á leikvelli í Laugardalnum eru meðal þeirra 76 verkefna sem íbúar kusu til framkvæmda á næsta ári í íbúalýðræðisverkefninu Hverfið mitt.  Um 450 milljónir eru til ráðstöfunar til framkvæmda í hverfum borgarinnar.

Atkvæðisrétt höfðu allir íbúar í Reykjavík, 16 ára og eldri og kusu um ellefu prósent þeirra 102 þúsund íbúa á kjörskrá, eða um 11 þúsund manns sem er metþátttaka, samkvæmt tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

<>

Í miðbænum var kosið var um almenningsgarð við Þingholtsstræti 25 og fjölga leiktækjum og bekkjum í Hljómskálagarðinum. Valin verkefni í Vesturbæ eru meðal annars sjónauki við Eiðisgranda og endurbætur á körfuboltavelli milli Faxaskjóls og Sörlaskjóls.

Þá á að bæta aðgengi að fjöru á Laugarnestanga, fá stærri klukkur í Laugardalslaug og merkja stíga í Laugardal. Bætt verður við bekkjum bæði í Hlíðum og Klambratúni og líkamsræktartæki á opið svæði vestan við miðbæ.

Valin verkefni í Árbæ og Breiðholti eru leiktæki á lóð Selásskóla, kaldur pottur í Árbæjarlaug og Breiðholtslaug og þrektæki við Rauðavatn.

Í Grafarholti og Grafarvogi kusu þátttakendur áningastað á milli Hádegismóa og Grafarholts, lýsingu við sleðabrekku fyrir neðan Reynisvatnsháls og á göngustíg meðfram Strandvegi.

Heimild: Ruv.is