Þrátt fyrir að tæplega 60% íbúa höfuðborgarsvæðisins búi í Reykjavík eru einungis 40% íbúða í byggingu á svæðinu þar.
höfuðborgarsvæðinu eru nú 3.734 íbúðir í byggingu, sem eru 479, eða 14,7% fleiri íbúðir en voru í byggingu í febrúar á þessu ári samkvæmt nýafstaðinni talningu Samtaka iðnaðarins miðað við fyrri talningu í febrúar. Fjölgað hefur íbúðum í byggingu í Kópavogi og Reykjavík, en fækkun hefur orðið í Hafnarfirði og Garðabæ miðað við í febrúar.
Ríflega helmingsfjölgun á síðustu 2 árum
Fjölgunin á síðustu tveimur árum nemur um 55,5%, en í október 2015 voru 2.402 íbúðir í byggingu, svo heildarfjölgun íbúða í byggingu nemur 1.332 íbúðum að því er segir á vef samtakanna.
Mest hefur fjölgunin orðin í íbúðum sem eru fokheldar eða lengra komnar en það, eða 24,8%, frá því í febrúar. Heildarfjöldi þeirra er 2.015. Ef miðað er við talningu SI frá því í október 2015 hefur fjölgunin í íbúðum sem eru á síðari byggingarstigum orðið 67%.
Einbýlishúsalóðum fækkað um tvær
Fjölgun íbúða sem eru komnar að fokheldu eða skemur hefur hins vegar einungis fjölgað um 4,8% frá því í febrúar eða um 78 íbúðum, en í heildina eru þær nú 1.719. Flestar þeirra íbúða sem nú eru í byggingu á höfuðborgarsvæðinu eru í fjölbýli eða 2.947, og hefur þeim fjölgað um 379, eða 12,9% frá því í febrúar.
Hlutfallsfjölgun par- og raðhúsa er þó hærri, eða 55,1% en um er að ræða 102 íbúða fjölgun. Einbýlishúsum í byggingu hefur hins vegar fækkað um tvær, og eru þær nú 123, og benda Samtök iðnaðarins á að nánast ekkert hafi verið úthlutað af lóðum til slíkra bygginga undanfarið.
Tæplega 3% af íbúðum í Reykjavík í byggingu
Lægsta hlutfall íbúða í byggingu miðað við heildarfjölda í viðkomandi sveitarfélaga er í Hafnarfirði, Seltjarnarnesi og svo Reykjavík. Eru 170 íbúðir í byggingu í Hafnarfirði, sem samsvarar 1,7% af heildaríbúðafjölda í sveitarfélaginu, á Seltjarnarnesi eru 35 íbúðir í byggingu sem er 2,0% heildarfjöldans en í Reykjavík er hlutfallið 2,9%, eða 1.509 íbúðir í heildina.
Hins vegar er hlutfallið hæst í Mosfellsbæ, eða 16,1%, en þar eru 513 íbúðir nú í byggingu, en næst hæst er hlutfallið í Garðabæ, þar sem eru 607 íbúðir í byggingu eða 11,3% af íbúðum bæjarins. Kópavogur er svo næst með 900 íbúðir í byggingu, sem samsvarar 6,9% íbúða í bænum.
Mosfellsbær byggir mest miðað við íbúafjölda
Hins vegar eru 40% allra íbúða sem eru í byggingu á höfuðborgarsvæðinu í byggingu í Reykjavík, þar sem um 57% íbúa höfuðborgarsvæðisins búa.
Næst á eftir kemur Kópavogur með 24,1% íbúða í byggingu, en þar búa ríflega 16% íbúanna, síðan Garðabær með 16,3%, þar sem tæplega 14% höfuðborgarbúa eru, loks Mosfellsbær með 13,7% þar sem einungis 4,5% íbúa svæðisins búa og síðan Hafnarfjörður með 4,6%., en þar búa 13,25% íbúanna. Minnsta sveitarfélagið, Seltjarnarnes rekur svo lestina, eins og gefur að skilja, með 0,9% íbúðir í byggingu., en 4,52% íbúa svæðisins.
Hlutfallsaukningin mest í Kópavogi
Hlutfallslega er jafnframt mest aukning íbúða í byggingu í Kópavogi þar sem eru 245 fleiri íbúðir í byggingu en í febrúar, en það jafngildir 37,4% aukningu. Tölulega er samt mest fjölgun í Reykjavík, eða 281 fleiri íbúðir, sem jafngildir 22,9% aukningu.
Hins vegar hefur íbúðum í byggingu fækkað frá því í febrúar í Hafnarfirði og Garðabæ, en í Hafnarfirði eru nú 67 færri íbúðir í byggingu eða 28,3% fækkun meðan nú eru 37 færri íbúðir í byggingu í Garðabæ sem er 5,7% fækkun.
Heimild: Vb.is