Home Fréttir Í fréttum „Laugardalshöllin er barn síns tíma“

„Laugardalshöllin er barn síns tíma“

379
0
Mynd: Ljósmyndasafn Reykjavíkur

augardalshöllin er úr sér gengin og algjör skortur er á heildstæðri umræðu um aðstöðumál afreksíþróttafólks á Íslandi. Þetta segja forkólfar Handknattleik- og Körfuknattleikssambanda Íslands sem eru orðnir langþreyttir á ástandinu.

<>

Bæði HSÍ og KKÍ reka fjöldan allan af landsliðum en hafa enga aðstöðu. Að finna tíma fyrir landsleiki í Laugardalshöllinni þykir þrautinni þyngri en vandamálið er þó mun stærra.

Karlalandsliðið fékk eina æfingu í Höllinni
„Við erum náttúrulega með 11 landslið allt í allt og erum núna bara að láta þau æfa hér og þar um bæinn og í hinum og þessum sveitarfélögum. A-landsliðið okkar æfði í þremur íþróttahúsum fyrir leikina gegn Svíþjóð. Þeir fengu eina æfingu í Laugardalshöll og það var á föstudeginum á milli leikjanna þannig að þeir gátu ekkert undirbúið sig í Höllinni fyrir leikinn. Þetta leysist, en vandamálið er stórt og mikið,” segir Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ.

„Númer 1,2 og 3 er þetta aðstaða fyrir landsliðin okkar. Að við höfum aðstöðu til æfinga fyrir yngri landsliðin og A-landsliðin okkar og annað og þess vegna erum við að kalla eftir því í þessari umræðu, og taka umræðuna alla leið, þegar verið að tala um þessa svokölluðu þjóðarleikvanga,“ segir Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ.

Höllin ekki boðleg lengur
Laugardalshöll er rúmlega 50 ára gömul og í alla staði úr sér gengin, of lítil og of gamaldags.

„Höllin sjálf er barn síns tíma. Þetta er orðið gamalt hús og þrátt fyrir góðan vilja stjórnenda sem vilja allt fyrir okkur gera að þá er hreinlega aðstæður í höllinni bara ekki boðlegar lengur. Húsið er bara of lítið, eða semsagt gólfflöturinn er of lítill, og vinnuaðstaða fyrir okkur í kringum leikina og ég tala nú ekki um blaðamenn og fjölmiðla, er bara hreint til skammar,“ segir Róbert.

„Til dæmis erum við á undanþágu núna varðandi bæði Evrópukeppni kvenna og HM karla. Það er gert ráð fyrir að lágmarki 3.800 manns minnir mig inn í íþróttahúsi sem að sjálfsögðu Laugardalshöllin tekur ekki. Ýmis aðstaða varðandi fjölmiðla og ýmislegt svona bara þarf að nútímavæða.“

„Öryggissvæðið fyrir aftan mörkin er stutt, það er ekki nema tveir metrar út í steyptar súlur. Og Ólafur Ægir lenti í því núna síðast að hann lenti á steyptri súlu og fékk heilahristing og það stafar bara af því að gólfflöturinn er, eins og ég segi, of lítill. Það er of stutt pláss í áhorfendur, auglýsingaskilti og útveggi og þetta þyrfti að laga og þetta lagast náttúrulega ekki nema í nýju húsi.“

Ekkert heyrt frá borgaryfirvöldum
Um miðjan september lýstu ríkisstjórn Íslands og borgaryfirvöld í Reykjavík því yfir að áfram yrði unnið að stækkun Laugardalsvallar sem, eins og Laugardalshöll, er úr sér genginn. Guðni Bergsson, formaður KSÍ, lýsti því yfir að honum fyndist æskilegt að byggt yrði þannig að hægt yrði að loka vellinum svo innigreinar gætu líka keppt þar. Hannes og Róbert hafa þó ekkert heyrt en heldur ekki sett sig í samband.

„Nei við höfum ekkert blandað okkur inn í þetta og kannski ættum við að vera duglegri við það.“

„Það hefur ekki verið rætt við okkur formlega en okkur fyndist mjög eðlilegt að það yrði skoðað. Við þekkjum svona dæmi frá Portúgal, Spáni og Þýskalandi og víða að það eru íþróttasalir reistir til hliðar við fótboltasalina og okkur finndist fullkomlega eðlilegt að það væri skoðað með hliðsjón af nýjum fótboltavelli.“

„Það vantar bara betri nýtingu í þjóðarleikvanga fyrir íþróttir almennt á Íslandi. Á það þurfum við að horfa og þannig getum við haldið áfram og viðhaldið þeim árangri sem íslenskar íþróttir eru að ná í dag.“

Heimild: Ruv.is