Ríkið og Reykjavíkurborg hafa samið um uppbyggingu 270 íbúða við Veðurstofu Íslands og við Sjómannaskólann. Íbúðirnar munu vera að minnsta kosti 270, litlar og hagkvæmar fyrir stúdenta, ungt og efnahagsminna fólk að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá ríkinu og Reykjavíkurborg.
Borgarráð hefur staðfest samningsniðurstöðu fjármála- og efnahagsráðuneytis og Reykjavíkurborgar um tvær lóðir sem ríkið hyggst afsala til borgarinnar. Lóðirnar tvær eru svokallaðar Sjómannaskóla- og Veðurstofulóðir.
Um er að ræða fyrstu lóðirnar sem skipulagðar verða undir íbúðabyggð samkvæmt viljayfirlýsingu fjármálaráðherra og borgarstjóra sem undirrituð var 2. júní síðastliðinn. Alls er áætlað að um 4.000 íbúðir geti risið á lóðum sem ríkið og Reykjavíkurborg semja nú um.
Auk þessara lóða sem samið var um í dag þá standa yfir viðræður um eftirfarandi reiti: Landhelgisgæslulóð við Seljaveg, lóð Borgarspítala, Keldur og Keldnaholt og svæði við Þjórsárgötu og Þorragötu.
Heimild: Ruv.is