Home Fréttir Í fréttum 6,5 milljarðar í skothelt sendiráð í Reykjavík

6,5 milljarðar í skothelt sendiráð í Reykjavík

221
0
Mynd: Skjáskot af rúv.is
Nýtt sendiráð Bandaríkjanna við Engjateig kostar sex og hálfan milljarð króna. Hnausþykkir öryggisveggir umlykja bygginguna og skothelt gler verður í öllum gluggum.

Bandaríska sendiráðið á Íslandi hefur verið til húsa við Laufásveg í miðbæ Reykjavíkur frá því sendiráðið var fyrst opnað árið 1941. Byggingarnar við Laufásveg eru í raun orðnar sögufrægar og þar hefur gengið á ýmsu undanfarin 75 ár. Má þar meðal annars nefna að Ronald Reagan, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, gisti í byggingunum þegar hann kom hingað til lands vegna leiðtogafundarins árið 1986. Nú styttist hins vegar í mikil tímamót í sögu bandaríska sendiráðsins á Íslandi, því við Engjateig standa yfir framkvæmdir við nýtt sendiráð, sem verður tekið í notkun árið 2019.

<>

„Við höfum verið á núverandi stað frá fimmta áratugnum svo það er kominn tími til að halda inn í 21. öldina með nútímalegri aðstöðu,“ segir Oscar Avila, talsmaður bandaríska sendiráðsins. „Við vinnum að ýmsum málum með samstarfsfólki okkar á Íslandi; að umhverfismálum og efnahagsmálum og við fáum betri aðstöðu til þess. Við getum líka tekið betur á móti Íslendingum sem koma hingað daglega til að sækja um vegabréfsáritanir, mæta á fundi og í móttökur. Þetta verða betri og þægilegri húsakynni fyrir alla.“

Öryggið sett á oddinn

Sendiráðið keypti bygginguna af verktakafyrirtækinu Ístaki, en höfuðstöðvar fyrirtækisins voru þar til skamms tíma. Húsið var byggt árið 2002 og er rúmlega 2.200 fermetrar. Mikið er lagt upp úr öryggismálum í og við nýju bygginguna.

„Ég get ekki nefnt öryggisatriðin í smáatriðum en get þó sagt að nýja sendiráðið lýtur sömu öryggisstöðlum og önnur sendiráð Bandaríkjanna, og við leggjum mikla áherslu á þann þátt,“ segir Avila.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu verður til dæmis öllu gleri í byggingunni skipt út fyrir skothelt gler, auk þess sem veggirnir umhverfis bygginguna geta staðið af sér högg frá stórum vörubíl á 80 kílómetra hraða. Og allt kostar þetta pening.

„Þetta er stórt og mikið verkefni eins og við höfum fengið að sjá. Kostnaðurinn er 62 milljónir dala fyrir allt verkið,“ segir Avila, en sú upphæð nemur um sex og hálfum milljarði íslenskra króna.

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvað gert verður við húsakynnin við Laufásveg, þótt líklegt sé að þau verði seld. Byggingarnar þar eru samtals rétt rúmir 2.000 fermetrar.

Heimild: Ruv.is