Home Fréttir Í fréttum Ein stærsta framkvæmd ársins hjá Garðabæ eru endurbætur á sundlauginni í Ásgarði

Ein stærsta framkvæmd ársins hjá Garðabæ eru endurbætur á sundlauginni í Ásgarði

449
0
Mynd: VA arkitektar

Ein stærsta framkvæmd ársins hjá Garðabæ eru endurbætur á sundlauginni í Ásgarði og rýmum innandyra.  Sundlaugargestir bíða nú spenntir eftir að laugin opni á ný en nú er ljóst að framkvæmdirnar hafa dregist á langinn og ekki verður hægt að stinga sér til sunds í Ásgarði fyrr en eftir áramót.

<>

Vonir standa til að laugin opni í janúar miðað við gang framkvæmda í dag.   Upphafleg áætlun gerði ráð fyrir að Ásgarðslaug myndi opna í nóvember á þessu ári en tafir á uppsteypu lagnakjallara hafa orðið til þess að verkskilum hefur seinkað.

Mynd: VA arkitektar

Helstu breytingar við endurbæturnar

Meðal helstu breytinga sem farið var í eru endurnýjun á öllu yfirborðsefni á baðklefum og sundlaug. Nýir heitir pottar verða byggðir með nuddstútum undir yfirborðinu, nýr kaldavatnspottur verður byggður sem og vað- og setlaug með barnarennibraut.  Gufubað verður endurnýjað og nýjar útisturtur settar upp fyrir utan.

Útiklefar verða endurnýjaðir og í inniklefum karla og kvenna verður byggður nýr klefi fyrir fatlað fólk.  Sturtur verða allar endurnýjaðar.

Ný girðing kemur utan um allt sundlaugarsvæðið og í nýju vaktherbergi verður fullkomið eftirlits- og myndavélakerfi sem eykur mjög öryggi sundlaugargesta.

Innandyra verður gólf í danssal lagað og rými opnað við hlið salarins þar sem þrekaðstaða almennings flyst upp úr kjallara.  Kraftþjálfunar aðstaða íþróttafólks flyst einnig úr kjallaranum í þrekaðstöðu almennings.  Kjallari verður jafnframt stækkaður til að koma hreinsibúnaði fyrir.

Verkstaðan í dag

Innandyra er búið að afhenda búningsklefa í kjallara sem meistaraflokkur í körfubolta hefur aðgang að.  Í danssal og þreksal uppi er verið að setja nýtt gler í glugga og gler í millivegg milli danssalar og þreksalar.  Þegar því er lokið verður klárað að setja upp loftræstingu í sölunum og þá er það svæði tilbúið.
Sundlaugarklefar eru langt komnir, búið er að setja lagnir og flísar. Í október verður byrjað að setja upp innréttingar í klefunum og svo verður málun og frágangur.
Á útisvæðinu er afrétting á sundlaug lokið og flísalögn er að hefjast.

Búið er að steypa potta á útisvæðinu og vinna við útiklefa er að hefjast.  Vinna í lagnakjallara undir sundlaugarsvæðinu gengur vel.

Eftir að verktaki lýkur verkinu þarf að hefjast handa við að prófa og stilla kerfi sem fylgja sundlauginni og pottunum.  Eins og fyrr segir er útlit fyrir að sundlaugin geti opnað á ný í byrjun næsta árs vonandi í janúar.

Plakat sem sýnir breytingarnar í Ásgarði (pdf-skjal)

Heimild: Garðabær.is

Aðalverktaki við framkvæmdinar er Þarfaþing ehf.