Home Fréttir Í fréttum Námurétthafar hirða stærstu bitana á Suðurnesjum – Milljarðar til ÍAV og Ístaks

Námurétthafar hirða stærstu bitana á Suðurnesjum – Milljarðar til ÍAV og Ístaks

140
0
Mynd: Vf.is

Stærstu verktakafyrirtæki landsins, svissnesska fyrirtækið ÍAV og danska fyrirtækið Ístak, hafa verið hlutskörpust í nær öllum stærstu útboðum sem snúa að jarðvinnu á Suðurnesjum undanfarin ár. Verksamningar fyrirtækjanna við Ísavia, Reykjanesbæ og Vegagerðina hljóða upp á milljarða króna. Fyrirtækin eru þau einu sem hafa rétt til vinnslu á jarðefnum á svæðinu og eru þannig í kjöraðstæðum þegar kemur að stórum útboðum sem krefjast mikils magns fyllingar- og burðarlagsefna.

<>

Rekstaraðili Keflavíkurflugvallar, Ísavia, hefur verið stærsti verkkaupinn á Suðurnesjum í jarðvinnuframkvæmdum undanfarin misseri, en samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu hafa farið fram útboð á sjö slíkum verkefnum undanfarin tvö ár. Af þessum sjö útboðum, sem hljóða upp á rúma níu milljarða króna hafa fyrirtækin tvö verið hlutskörpust fimm sinnum, en samtals hljóma verksamningar þessara tveggja fyrirtækja við Ísavia í jarðvinnu upp á tæplega átta milljarða króna.

Þá varð ÍAV hlutskarpast í útboði um stærstu gatnaframkvæmdir í Reykjanesbæ hin síðari ár, við Flugvelli, sem boðin var út snemma á þessu ári og Ístak varð hlutskarpast í útboði Vegagerðarinnar um byggingu tveggja hringtorga á Reykjanesbraut, en bæði þessi verkefni byggjast að miklu leyti á miklum efnisflutningum úr námum fyrirtækjanna í Stapafelli.

ÍAV hefur verið áberandi á verktakamarkaði á Suðurnesjasvæðinu frá því að fyrirtækið náði hagstæðum samningum um námurétt í Stapafelli og Súlum, án útboðs árið 1994 og hafa flest stærstu útboðsverkefni á svæðinu fallið fyrirtækinu í skaut, þar með talin öll gatnagerð í nýjustu hverfum Reykjanesbæjar, Dalshverfi og Tjarnarhverfi.

Rétt er að taka fram að samkeppnisyfirvöld könnuðu námustarfsemi ÍAV, í Stapafelli og í Súlum, seint á níunda áratug síðustu aldar og komust að þeirri niðurstöðu að fyrirtækið hafi ekki brotið í bága við samkeppnislög. Þó er tekið fram í álitinu að samkeppni yrði virkari á markaðnum fyrir töku og sölu jarðefna ef ráðuneytið gengi framvegis til samninga um efnistöku á grundvelli útboðs. Námuréttur hefur þó aldrei verið boðinn út, hvorki af hálfu Utanríkisráðuneytisins sem fór með samningsmálin í upphafi, né af hálfu Fjármálaráðuneytisins sem samningurinn heyrir undir nú.

Heimild: Sudurnes.net