Home Fréttir Í fréttum Snjóflóðamannvirki vígð í Neskaupstað

Snjóflóðamannvirki vígð í Neskaupstað

126
0
Mynd: Fsr.is

Þriðjudaginn 19. september voru snjóflóðamannvirki á Tröllagiljasvæðinu í Neskaupstað vígð.

<>

Umhverfisráðherra, bæjarstjóri Fjarðarbyggðar og þrír bæjarfulltrúar klipptu á borða til marks um að verkinu væri formlega lokið.

Um er að ræða um 660 m langan þvergarð, um 420 m langan leiðigarð og 24 snjóflóðavarnarkeilur. Framkvæmdirnar voru unnar á árunum 2008 til 2017.

Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, setti athöfnina og bauð gesti velkomna. Því næst ræsti Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, Hágarðahlaup Knattspyrnudeildar Þróttar en hlaupið var eftir þeim stígum sem orðið hafa til við snjóflóðamannvirkin.

Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar, flutti ávarp og Írena Fönn Clemmensen flutti tvö ljóð. Að því loknu flutti ráðherra ávarp og óskaði heimamönnum til hamingju með mannvirkin. Sr. Sigurður Rúnar Ragnarsson sóknarprestur blessaði mannvirkin og loks klipptu þrír bæjarfulltrúar, bæjarstjóri Fjarðarbyggðar og ráðherra á borða til marks um að verkinu væri formlega lokið.

Markmið með byggingu snjóflóðamannvirkjanna er að taka við snjóflóðum, stöðva flóðin og beina hluta þeirra í sjó. Við gerð þeirra var jafnframt horft til þess að nýta mannvirkin til útivistar. Göngustígar, bílastæði og áningarstaðir opna útivistarmöguleika rétt við íbúðabyggðina. Hægt er að ganga eftir görðunum endilöngum og njóta útsýnis yfir byggðina og út Norðfjörð.

Heimild: Framkvæmdasýsla ríkisins