Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna, tók í gær fyrstu skóflustungu að nýju hátæknivöruhúsi sem rísa mun að Korngörðum 3 í Sundahöfn.
Það er Dalsnes ehf sem byggir húsnæðið og mun það meðal annars hýsa starfsemi Innnes ehf og fleiri fyrirtækja. Starfsemi Innnes verður þannig sameinuð undir eitt þak, en starfsemin er á fjórum stöðum í dag, samkvæmt fréttatilkynningu.
„Húsnæðið er með 3 millipöllum en í húsinu verða frysti- og kæligeymslur ásamt þurrvörulager. Í húsnæðinu verður komið fyrir sjálfvirkum vöruhúsabúnaði, sem er fyrsti sinnar tegundar á Íslandi og mun allri frysti- og þurrvöru sem hýst er í vörugeymslunni verða stýrt með honum,“ segir enn fremur í tilkynningu.
Nýja húsnæðið mun auðvelda Innnes og þeim fyrirtækjum er nýta vöruhúsið, að uppfylla skuldbindingar sínar um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda en staðsetning hússins mun auðvelda vörustreymi til og frá húsinu í framtíðinni til muna, segir í tilkynningu, þar sem skipafélög, flutningsfélög og stærstu viðskiptavinir fyrirtækjanna eru í næsta nágrenni við nýja húsnæðið.