Home Fréttir Í fréttum Lóðir í nágrenni Akureyrar rjúka út

Lóðir í nágrenni Akureyrar rjúka út

169
0
Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Eftirspurn er eftir byggingalóðum í nágrannasveitarfélögum Akureyrar hefur aukist mikið upp á síðkastið. Tugir lóða hafa nú verið skipulagðir á vegum sveitarfélaganna auk þess sem landeigendur bjóða íbúðalóðir í auknum mæli.

Sveitarfélögin Svalbarðsstrandahreppur, Eyjafjarðarsveit og Hörgársveit liggja öll að Akureyrarkaupstað. Mikið hefur verið byggt af íbúðum á Akureyri undanfarin ár, en síðustu mánuði hefur eftirspurnin einnig rokið upp í sveitarfélögunum í kring.

<>

Hröðuðu skipulagsvinnu til að anna eftirspurn

„Það er búin að vera lengi hér hugsunin að stækka hverfið. En við þessa gífurlegu eftirspurn sem hefur orðið allt í einu núna þá hröðuðum við skipulagsvinnunni og erum að ljúka því núna,“ segir Eiríkur H.Hauksson, sveitarstjóri í Svalbarðsstrandarhreppi. Á Svalbarðseyri verða því til nýjar lóðir fyrir ríflega 100 íbúðir í tveimur áföngum, þær fyrstu tilbúnar í haust.

20 nýjar íbúðir á þremur árum

Í Eyjafjarðarsveit hafa byggingalóðir í Hrafnagilshverfi verið tilbúnar mun lengur. Þær tóku að seljast grimmt á síðasta ári. „Og hér reikna ég með að á þriggja ára tímabili muni rísa á að giska tuttugu íbúðir eða hús,“ segir Ólafur Rúnar Ólafsson, sveitarstjóri. Því til viðbótar eru 15 lóðir tilbúnar til úthlutunar.

Landeigendur skipuleggja og selja íbúðalóðir

Helsta eftirspurnin í Hörgársveit er í íbúðahverfinu við Lónsbakka. Þar er búið að auglýsa nýtt deiliskipulag fyrir 90 íbúðir sem hægt væri að hefjast handa við næsta vor. Auk alls þessa hafa landeigendur í þessum sveitarfélögum svo skipulagt og selt byggingalóðir.

Fólk sækir í kyrrðina og lægra lóðaverð

„Við finnum það að fólk er að sækja hér í umhverfið, það sækir hér í gott skólaumhverfi, náttúru og kyrrð,“ segir Ólafur. Eiríkur bendir á að lóðaverð hafi þarna einnig áhrif. „Lóðaverðið í sveitarfélögunum hér í kringum Akureyri er náttúrulega svolítið lægra og það hefur auðvitað, hvað eigum við að segja, dálítið stór áhrif,“ segir hann.

Eitt og sama íbúðasvæðið

Og menn eru sammála um að samlegðaráhrifin séu mikil og fólk líti orðið á Akureyri og nágrenni sem eitt búsetusvæði. „Fólk hugsar bara um svæðið í heild sinni,“ segir Eiríkur. „Þó það séu sveitarfélagamörk hérna þá er fólk, ef það vil búa á Akureyri eða í nágrenninu, ekki að velta fyrir sér hreppamörkum. Heldur hvar viltu setjast að og hafa það gott. Samvinnan er svo mikil hérna á milli sveitarfélaganna að það er tiltölulega auðvelt að búa sitt hvoru megin við hreppamörkin.“

Heimild: Ruv.is