Home Fréttir Í fréttum 170 nýjar íbúðir í Glerárhverfi á Akureyri

170 nýjar íbúðir í Glerárhverfi á Akureyri

198
0
Mynd: Skipulagsdeild Akureyrarbæjar - RÚV
Áformað er að byggja 170 íbúðir í Glerárhverfi á Akureyri sem samsvarar ársþörf fyrir nýjar íbúðir í bænum. Fulltrúi í skipulagsráði segir að framkvæmdir gætu hafist næsta vor. Íþróttafélagið Þór missir hluta af svæði sínu vegna framkvæmdanna.

Skipulagsráð Akureyrarbæjar afgreiddi í síðustu viku nýtt deiliskipulag fyrir svæðið. Áformin eru í samræmi við stefnu bæjaryfirvalda að þétta byggð og stendur til að reisa fjölbýlishús, parhús og einbýlishús á svæðinu, sem er að stórum hluta óbyggt í dag. Fyrirhugað byggingarsvæði er í kringum Íþróttasvæði Þórs og nær yfir Melgerðisás og Skarðshlíð að Hörgárbraut, frá Undirhlíð í suðri upp að Litluhlíð í norðri. Sjá mynd:

<>
Mynd með færslu
 Mynd: Skipulagsdeild Akureyrarbæjar  –  RÚV

Fullnægir ársþörf fyrir íbúðir

Edward H. Huijbens, fulltrúi í skipulagsráði segir í samtali við fréttastofu að samkvæmt deiliskipulaginu verði 170 íbúðir byggðar í hverfinu. Áætlað er að ársþörf fyrir nýtt húsnæði á Akureyri, ef tekið er mið af fjölgun íbúa í bænum, sé á bilinu 150 til 170 íbúðir. Í nýju aðalskipulagi Akureyrarbæjar til ársins 2030 er mikil áhersla lögð á að þétta byggð og auka framboð lóða á nýjum svæðum inni í bænum. Edward segir að fyrirhugaðar framkvæmdir séu liður í því.

Grunnskólanemendum fækkað

Hverfið byggðist upp á árunum milli 1965 og 1980 en nú er stór hluti íbúa eldra fólk og barnlaust. Vonast er til þess að uppbyggingin nú stuðli að því að yngra fólk setjist þar að. Í grunnskóla hverfisins, Glerárskóla, hefur nemendafjöldi dregist saman. Helga Halldórsdóttir, skólastjóri í Glerárskóla, segir að nemendum hafi reyndar fjölgað aðeins að undanförnu og útlit sé fyrir að hverfið sé að endurnýjast. Á tímabili hafi nemendafjöldinn þó farið niður fyrir 300 en var nær 400 fyrir um tíu árum. Því sé fyrirhuguð uppbygging kærkomin. „Okkur líst bara mjög vel á þetta. Það þarf að fjölga börnum í skólanum og svo stendur til að byggja leikskóla,“ segir Helga.

„Getum aldrei sagt að við séum sammála þessu“

Samkvæmt skipulaginu taka fjölbýlishús yfir hluta af svæði Íþróttafélagsins Þórs. Svæðið hefur síðustu ár verið notað til æfinga í kastgreinum á vegum Ungmennafélags Akureyrar, sem færast við upphaf framkvæmda á annan stað innan svæðis Þórs. Því missir íþróttafélagið hluta af því svæði sem hefur verið nýtt til knattspyrnuiðkunar. „Við getum aldrei sagt að við séum sammála þessu. Við erum hlynnt þéttingu byggðar, en á sama tíma erum við að missa svæði,“ segir Valdimar Pálsson, framkvæmdastjóri Þórs.

Vilja nýjan gervigrasvöll í staðinn

Forsvarsmenn félagsins hafa óskað eftir því að bærinn komi til móts við þá með upphituðum gervigrasvelli á svæðinu svo ekki þurfi að fækka æfingum vegna plássleysis. „Við teljum okkur vera félag sem eigi að stækka og því skýtur skökku við að samþykkja að þrengja svæðið. Ef við fengjum gervigras þá gætum við fjölgað æfingum á þeim velli í staðinn,“ segir Valdimar.

Síðustu ár hafa flestar nýjar íbúðir á Akureyri verið byggðar í Naustahverfi, syðst í bænum og eru hafnar framkvæmdir við nýtt hverfi enn sunnar, nálægt Kjarnaskógi. Valdimar segist jákvæður gagnvart því að byggt verði á fleiri stöðum í bænum. Uppbygging í þorpinu, norðan Glerár, geti til lengri tíma haft jákvæð áhrif á iðkendafjölda hjá Þór. „Við erum jákvæðir út í það, en auðvitað ber okkur að verja okkur svæði og ef við náum því með því að fá gervigras í staðinn þá erum við hamingjusamir,“ segir hann.

Framkvæmdir gætu hafist næsta vor

Deiliskipulagið fer fyrir bæjarstjórn 5. september og verður í framhaldinu auglýst með formlegum hætti. Gefst þá öllum kostur á að skila inn athugasemdum. Í kjölfarið fjallar bæjarstjórnin um skipulagið að nýju og það samþykkt, með eða án breytinga. Edward á ekki von á því að það taki miklum breytingum í meðförum bæjarstjórnar. Þá segir hann að verktakar séu í startholunum að hefja framkvæmdir og því ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að þær hefjist næsta vor.

Heimild: Ruv.is