Home Fréttir Í fréttum Áform um byggingu 400 fermetra verslunar og bensínstöðvar í Vík í...

Áform um byggingu 400 fermetra verslunar og bensínstöðvar í Vík í Mýrdal frestað

168
0
Mynd: VÍSIR/HEIÐA
Áform um nýja 400 fermetra verslun og bensínstöð sem Olís ætlaði að reisa við Austurveg 16 í Vík í Mýrdal hafa verið sett á ís vegna fyrirhugaðra kaupa Haga á Olíuverslun Íslands. Sveitastjórn Mýrdalshrepps hafnaði öðru sinni beiðni Olís um að fá að reisa ómannaða eldsneytisafgreiðslu á lóðinni en veitti félaginu frest til mars á næsta ári til að skila inn teikningum af fyrirhuguðum framkvæmdum á lóðinni.

Olíuverslun Íslands fékk úthlutaðri lóð við Austurveg í Vík í september á síðasta ári en eftir miklu er slægjast á þessum slóðum enda fara um milljón ferðamenn í gegnum þorpið árlega. „Við finnum mjög lítinn mun hvort þetta er á sumri eða vetri,“ segir Ásgeir Magnússon, sveitarstjóri Mýrdalshrepps, í samtali við Fréttablaðið í byrjun árs.

<>

Olíufélagið óskaði eftir því við sveitastjórnina í janúar að fá að reisa ómannaða sjálfsafgreiðslustöð á lóðinni en sveitastjórnin sagði það ekki koma til greina þar sem það samræmdist ekki úthlutun lóðarinnar.

Í mars óskaði Olís  eftir að lóðin yrði stækkuð og lagði fram hugmyndir um nýtingu hennar. Sveitastjórn samþykkti verulega stækkun lóðarinnar og lýsti yfir ánægju með áformin en í ágúst óskaði olíufélagið svo aftur eftir því að fá setja upp ómannaða sjálfsafgreiðslustöð.

Sveitastjórnin hafnaði þeirri beiðni en féllst á, með vísan til breyttra stöðu Olís vegna fyrirhugaðra kaupa Haga á Olíuverslun Íslands, að framlengja þann frest sem fyrirtækið hefur til að skila inn teikningum af fyrirhuguðum framkvæmdum þar til í mars á næsta ári.

Tilkynnt var í apríl að Hagar, sem meðal annars reka Bónus og Hagkaup, hefði keypt Olíuverslun Íslands og fasteignafélagið DGV ehf.  Ef Samkeppniseftirlitið samþykkir kaupin er gert ráð fyrir að þau verði frágengin undir lok þessa árs. Samkeppniseftirlitið hefur þegar hafnað samruna Haga og Lyfju vegna hreinlætis- og snyrtivara.   Hlutabréf í Högum lækkaði um rúm sex prósent í byrjun mánaðarins en það var rakið til þess að samdráttur í sölu sem hófst með innkomu Costco á markaði í júní hefði haldið áfram í júlí en Costco er einmitt með bensíndælur fyrir utan verslun sína í Garðabæ.

Heimild: Ruv.is