Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, Helgi S. Gunnarsson forstjóri Regins hf., Gísli Steinar Gíslason og Guðni Rafn Eiríksson fyrir hönd Landstólpa þróunarfélags, tóku fyrstu skóflustunguna vegna upphafs framkvæmda við reit 1 og 2 við Austurbakka í Reykjavík á sumardaginn fyrsta.
Reginn hefur áður tilkynnt um kaupsamning á 8.000 m2 útleigurými og verður rými Regins að mestu staðsett á 1. og 2. hæð bygginganna. Hið keypta er afhent fullgert að utan og sameign en útleigusvæði tilbúin til innréttinga.
Fyrirhugaðar framkvæmdir eru hluti af stærsta byggingaverkefni fram til þessa í hjarta Reykjavíkur. Samkvæmt deiliskipulagi má byggja á reitum 1 og 2 við Austurbakka, 21.400 m2 ofanjarðar. Áætlað er að þar verði íbúðir og fjölbreytt húsnæði fyrir ýmsa atvinnustarfsemi, s.s. verslanir, veitingahús, skrifstofur og þjónustu. Auk þess verður byggður bílakjallari á reitnum sem verður samtengdur öðrum bílakjöllurum á lóðinni, allt að Hörpu. Áætlað að sameiginlegur kjallari rúmi um 1.000 bíla.
Heimild: Reginn.is