Eins og fram hefur komið í fréttum RÚV undanfarið hefur pólska verktakafyrirtækið G&M ítrekað svikið starfsfólk sitt um laun og hlunnindi.
Fyrirtækið vinnur að þremur stórum verkefnum fyrir verktakann LNS Sögu; Sjúkrahótelinu við Hringbraut, virkjun Landsvirkjunar að Þeistareykjum og íbúðabyggingu Valsmanna við Hlíðarenda.
Brynjar Harðarson, framkvæmdastjóri Valsmanna, segir í samtali við fréttastofu að það sé leiðinlegt að heyra að verktakinn brjóti á starfsmönnum sínum, en segir að það sé ekkert sem Valsmenn geti gert í því.
Halldór Ó. Sigurðsson forstjóri Ríkiskaupa segir að eftir ítrekaðar fréttir af brotum gegn starfsfólki hjá undirverktökum hafi Ríkiskaup ákveðið að setja skilyrði um keðjuábyrgð í útboðsgögnum sínum. Reykjavíkurborg og Landsnet hafa sett samskonar skilmála, en keðjuábyrgð er ekki skylda samkvæmt lögum.
Nýta sér ódýrt vinnuafl
„Við höfum viljað taka upp svokallaða keðjuábyrgð, hún felur það í sér að þegar verkkaupi og aðalverktaki hafa gert með sér samning að þá beri aðalverktakinn ábyrgð á því að verktakar á hans vegum standi við kjarasamninga og lög,“ segir Þorbjörn Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samiðnar.
Samkvæmt þessu bæri LNS Saga sem aðalverktaki ábyrgð á aðgerðum undirverktakans G&M. „Þetta er með mjög mörg verkefni þetta fyrirtæki og að stærstum hluta eru þeir að framkvæma þetta með erlendum undirverktökum. Menn vilja fá ódýrara vinnuafl, það er auðvitað engin önnur meginástæða fyrir því, og þá er auðvitað mjög erfitt fyrir verktaka sem eru hér með íslenska starfsmenn og verða auðvitað að hlíta markaðinum með laun að keppa við slíka aðila.“
„Það er auðvitað spurning hvort að við sem þjóð sættum okkur við það að allar stærstu framkvæmdir hér á Íslandi séu framkvæmdar með félagslegum undirboðum,“ segir Þorbjörn. Ríki og sveitarfélög geti tekið upp keðjuábyrgð að eigin frumkvæði en réttast sé að festa í lög keðjuábyrgð fyrir einkageirann.
„Til skammar“
Sigurður Bessason, formaður Eflingar, tekur í sama streng. Aðalverktakar og verkkaupar geti ekki fríað sig ábyrgð. „Útboðsaðilar verða að gæta þess að fyrirtækin sem að taka að sér verkin geti staðið við það sem að þau eiga að gera og tryggja það að þau vinni hér samkvæmt kjarasamningum og lögum, og tryggja það að fólk fái greidd laun eins og það á rétt á en fólk sé ekki látið vinna hér mánuðum saman og það í verkum sem tilheyra okkar samfélagi, sem er bygging á spítala, það er til skammar,“ segir Sigurður.
Heimild: Ruv.is