Hönnun Hlemmtorgs og Borgarlínu við Hlemm og hluta Laugavegar var kynnt í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkur í síðustu viku. Áætlað er að framkvæmdir hefjist í apríl eða maí á næsta ári og verði lokið um mitt ár 2027.
Verkefnið er umfangsmikið og flókið og hefur kallað á víðtækt samstarf. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs borgarinnar mættu fulltrúar frá Verkefnastofu Borgarlínu og fulltrúi frá alþjóðlegu landslags- og arkitektastofunni Mandaworks sem vann samkeppni Reykjavíkurborgar um landslagshönnun fyrir Hlemmtorg. Hönnunin hlaut jákvæðar viðtökur í ráðinu og Borgarlínuleiðir og hjólaleiðir taldar vel útfærðar í gegnum torgið.

Hlemmsvæðið er skipulagt sem miðborgartorg og þar er verið að endurskapa almenningsrými fyrir alla aldurshópa með aðgengi fyrir öll. Svæðið verður tilvalið fyrir ýmiss konar viðburði og leik í öruggu umhverfi. Almenningssamgöngur verða eina akandi umferðin um torgið.


Frumdragaskýrsla var samþykkt fyrir svæðið í janúar 2021, forhönnun er lokið og deiliskipulag hefur verið samþykkt. Verkhönnunin er nú í rýni og áætlað að því ferli ljúki í lok janúar.


Myndir: Mandaworks og VSÓ ráðgjöf.
Heimild: Borgarlinan.is












