Baðlónið Sky Lagoon á Kársnesi opnaði í lok apríl 2021 og skapaði á þeim tíma 110 ný störf. Áætlaður framkvæmdakostnaður var um fimm milljarðar króna á þeim tíma en í dag er lónið þekkt meðal bæði borgarbúa og ferðamanna sem leitast við að slaka á.
Upplifun Sky Lagoon á sér rætur að rekja til íslenskrar sögu, náttúru og hefða en að sögn framkvæmdastjóra lónsins lifir þjóðarsál Íslendinga í baðmenningu landsins. Stofnendur Sky Lagoon fengu þá hugmynd að bjóða upp á þá menningu við ysta odd Kársness.
Ákveðin trú um heilsumátt vatnsins og sjónarspil himins hvatti þá áfram til að bjóða upp á slíka upplifun í nærveru höfuðborgarsvæðisins.
Sky Lagoon opnaði árið 2021, á tímum heimsfaraldurs, og segja eigendur að það hafi verið mikil áskorun en þó dýrmætur tími þar sem þeim gafst tækifæri til að byggja upp teymi og móta menningu fyrirtækisins frá grunni.
Helga María Albertsdóttir, framkvæmdastjóri Sky Lagoon, segir að fyrirtækið hafi þá verið afar þakklátt þeim hlýju móttökum sem Íslendingar sýndu lóninu og hversu fljótt lónið varð hluti af samfélaginu.
„Við einbeitum okkur mikið að því að veita gestum okkar upplifun sem er bæði djúp og íslensk í eðli sínu. Við sækjum innblástur í íslenska menningu, torfið, grjótið og líka klömbruhleðsluna sem hafa mótað íslenskt landslag um aldir.“
Fóru í umfangsmiklar framkvæmdir
Þegar Sky Lagoon opnaði var einn helsti sölupunktur fyrirtækisins hið svokallaða sjö skrefa ferli. Ferlið samanstendur af lóninu sjálfu, stuttri dýfu í kalda pottinn, 5-10 mínútna saunuferð, vatnsbunu, saltskrúbbi með möndlu- og sesamolíu, gufu og svo að lokum sturtu áður en haldið er aftur ofan í lónið.
Frá opnun hefur ferlið verið kjarninn í starfsemi Sky Lagoon og segir Helga að viðtökurnar hafi farið fram úr björtustu vonum. Mikil aðsókn hafi þó verið í hið svokallaða Turf House, sem hýsir bæði gufuböðin og saltbarinn.
„Það er nú komið ár síðan við opnuðum Skjól,“ segir Helga en það er nýjasta viðbótin við sjö skrefa ferlið. „Þetta er nýjung þar sem við bætum krækiberjasafti sem inniheldur handtínd íslensk krækiber í bland við íslenskt jurtate.“
Hún segir að eftir að hafa rætt við gesti lónsins undanfarin ár hafi Sky Lagoon ákveðið að hefja framkvæmdirnar en lónið greindi frá því á síðasta ári að kostnaður framkvæmdanna hafi verið um tveir milljarðar króna.
Dýrmætt tilefni fyrir fyrirtækið
Helga segir að viðbrögð gesta og sögur þeirra til starfsmanna séu einnig dýrmæt en þó nokkrir viðskiptavinir segjast fagna mikilvægum dögum í lóninu. Margir gestir nota tækifærið og verja til dæmis afmælisdögum eða brúðkaupsafmælum í Sky Lagoon.
„Við bjóðum gestum ýmsar leiðir til að njóta en ein sú vinsælasta er stefnumótaleiðin. Þar er boðið upp á sælkeraplatta fyrir tvo. Nú erum við reyndar komin í hátíðarbúning og verður jólaplattinn líka fáanlegur í byrjun nóvember.“
Sky Lagoon hefur einnig bætt við svokallaðri morgunstund sem Helga segir að hafi verið mjög vinsæl undanfarið sumar. Lónið er þó ekki með sinn eigin veitingastað en býður þó upp á eigin platta ásamt súpum og samlokum á kaffihúsi Sky Lagoon.
„Það er svo gaman að heyra frá pörum og hjónum sem segjast vera að koma hingað á sitt þriðja eða fjórða brúðkaupsafmæli og segja að lónið hafi gert upplifun sína og þennan sérstaka dag svo góðan.“
Heimild: Vb.is