
Haraldur Þór Jónsson, oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps undrast að það eigi að setja gjaldtöku á nýja brú yfir Ölfusá við Selfoss og segir það ósanngjarnt fyrir íbúa á Suðurlandi að þurfa að borga fyrir það að aka yfir brú til að komast á höfuðborgarsvæðið.
Bygging nýrrar brúar Ölfusá er hluti af verkefninu Hringvegur um Ölfusá hjá Vegagerðinni, sem snýst um færslu Hringvegarins út fyrir þéttbýlið á Selfossi. Byggja á 330 metra langa brú, sem mun kosta um 18 milljarða króna. Brúin verður stagbrú með 60 metra háum turni á Efri-Laugardælaeyju.
Brúargólfið verður 19 metra breitt og er gert ráð fyrir 2+1 vegi með aðskildum akstursstefnum, ásamt göngu- og hjólaleið. Gjaldtaka verður yfir nýju brúna, sem Haraldi Þór Jónssyni, oddvita Skeiða og Gnúpverjahrepps hugnast ekki.

Aðsend
„Auðvitað er ég sáttur við brúna en við verðum samt að horfa á það að þetta er í fyrsta sinn, sem er verið að setja gjaldtöku á íbúa á Suðurlandi af því að núverandi vegakerfi er sprungið. Hingað til hafa veggjöld snúist um að stytta tíma. Ég held að þetta sé svolítið sérstakt þegar við hérna á Suðurlandi með alla þessa mikilvægu orkuinnviði, sem er lífæð samfélagsins á höfuðborgarsvæðinu þurfum allt í einu að fara að borga yfir brú til að komast í bæinn, mér finnst það ekki rétt,” segir Haraldur Þór
Ósanngjarn segir oddvitinn.
„Það er miklu eðlilegra að það sé rukkað kílómetragjald jafnt á alla og svo framvegis.”

Magnús Hlynur Hreiðarsson
Ætlar þú ekki að aka yfir nýju brúna á rafmagnsbílnum þínum?
„Jú að sjálfsögðu mun ég aka yfir brúna og borga með bros á vör en það breytir því ekki að mér finnst þetta ósanngjarnt,” segir Haraldur Þór Jónsson, oddviti Skeiða og Gnúpverjahrepps. Framkvæmdir eru nú þegar hafnar við nýju brúnna, sem stefnt er að verði fullbyggð í október 2028.
Heimild: Visir.is