
Vegagerðin hefur nú sett af stað undirbúning vegna breikkunar á Suðurlandsvegi nr. 1 í Flóanum austan við Selfoss að Skeiðavegamótum. Þar á að útbúa 13 kílómetra langan 2+1-veg. Því fylgir að breyta þarf gatnamótum á nokkrum stöðum og fækka vegtengingum.
„Breytingar og nýjar útfærslur á tengingum sveitavega við hringveginn verða nokkuð stór þáttur í þessu verkefni. Í Flóanum eru á nokkrum stöðum T-gatnamót, þar sem ökumenn þurfa að taka vinkilbeygju þegar komið er inn á hringveginn og slysahættan sem því fylgir er þekkt,“ segir Svanur G. Bjarnason, svæðisstjóri Vegagerðarinnar á suðursvæði.

Útfærslurnar eru í þróun
„Þar sem svona háttar til kemur til greina að útbúa hliðarvegi við afleggjara heim að bæjum og einstaka hverfum. Þar sem umferðarþunginn er meiri geta mislæg gatnamót eða hringtorg komið til greina,“ segir Svanur. Hann vísar þarna til Skeiðavegamóta, sem eru austur undir Þjórsá. Á þeim tekur við Hrunamannavegur, sem svo heitir, en sá liggur upp Skeiðin og að Flúðum auk tenginga inn á aðrar leiðir.
„Skeiðavegamótin eru hættuleg og þar þarf því úrbætur. Útfærsla í Flóanum gæti raunar orðið um margt svipuð og fólk þekkir af nýjum vegi í Ölfusinu; 2+1-brautir, mislæg gatnamót og tengingar við bæi með hliðarslóðum. Þetta þarf samt allt að þróast betur, meðal annars í skipulagsmálunum sem þarna eru í lögsögu Flóahrepps. Slíkt er ferli sem tekur nokkur ár og því mikilvægt að hefja samtalið sem fyrst,“ segir Svanur.
10 ma. kr. framkvæmdir gætu hafist árið 2030
Miðað við drög að samgönguáætlun sem til umfjöllunar hefur verið á hinu pólitíska sviði má búast við að framkvæmdir í Flóanum hefjist í kringum árið 2030. Kostnaður við verkið miðað við núverandi forsendur gæti orðið tæpir 10 milljarðar króna. Áætlanir gera svo ráð fyrir að haldið verði áfram lengra austur á bóginn og útbúinn 2+1-vegur áfram austur um Rangárvallasýslu, allt að Markarfljóti.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út fimmtudaginn 27. febrúar.
Heimild: Mbl.is