Það sem eftir stendur af byggingunni sem kviknaði í fyrir rúmu ári á Hvaleyrarbraut í Hafnarfirði verður líklega rifið á næstu dögum eða vikum að sögn Hildar Bjarnadóttur byggingarfulltrúa í Hafnarfirði.
Eins og fram hefur komið hafa íbúar furðað sig á því að rústirnar standi enn, ásamt ýmsu drasli, svo nærri fjölmennri íbúabyggð.
„Því miður hefur þetta tekið svolítið langan tíma. Málið hefur verið flókið úrlausnar þar sem þarna eru margir eigendur og nokkur bil sem ekki brunnu. Tryggingamál eru ekki á borði byggingarfulltrúa heldur að tryggja öryggi og sjá til þess að brunarústir valdi ekki frekara tjóni,“ sagði Hildur þegar blaðið forvitnaðist um gang mála í gær.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.
Heimild: Mbl.is