Home Fréttir Í fréttum Klettaskóli er löngu sprunginn og byggja þarf annan eins

Klettaskóli er löngu sprunginn og byggja þarf annan eins

37
0
Unnur Helga Óttarsdóttir. – Mynd/Þroskahjálp/samsett

Opna þarf annan skóla eins og Klettaskóla og jafstóran, segir formaður Þroskahjálpar. Almenna skólakerfið er illa búið þeim mannskap sem þarf til að sinna nemendum með flóknar stuðningsþarfir.

<>

Opna þarf sem fyrst annan jafnstóran skóla og Klettaskóla, segir Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar. Almenna skólakerfið sé ekki vel búið þeim sérþjálfaða mannskap og aðstöðu sem þurfi. Í mörg ár hefur þörfin fyrir annan sérskóla á við Klettaskóla verið mjög brýn.

Ellefu börnum var synjað um skólavist í skólanum og fara þau því í almenna skóla. Húsnæðið hefur í mörg ár verið of lítið. Það er gert fyrir á milli 70 til 90 nemendur en þar eru yfir 140 nemendur með þroskahömlun og fjölfötlun.

Unnur Helga segir þetta um Klettaskóla:

„Hann er löngu sprunginn og það er verið að nýta hvern einasta fermetra í skólanum og auk þess er búið að setja kennsluskúra á leiksvæðið fyrir utan. “

Fjöldi starfs fólks í Klettaskóla er langtum meiri en nemendafjöldinn og þurfa nemendur mikla þjónustu við að komast til og frá skóla.

„Þetta eru nemendur sem þurfa mikla þjónustu og ýmis hjálpartæki sem taka mikið pláss og þetta eru nemendur sem ganga ekki sjálf í skólann heldur eru það aðstandendur sem eru að skutla á hverjum morgni eða ferðaþjónusta fatlaðra þannig að þið geti ímyndað ykkur örtröðina þarna fyrir utan á morgnanna klukkan átta. “

Almenna skólakerfið er ekki í stakk búið til að sinna þeim börnum sem hafa miklar stuðningsþarfir, segir Unnur þótt áherslan sé á inngildandi menntun og skóla án aðgreiningar.

„Til þess að það gangi upp þarf klárlega að ráða fleiri fagaðila í skólana eins og þroskaþjálfa, sérkennara, iðjuþjálfa, sálfræðinga, námsráðgjafa, talmeinafræðinga, þannig að almenni skólinn á auðvitað að geta tekið við þessum börnum en samt sem áður með flóknar stuðningsþarfir og tengist líka bara almennu aðgengi og sérútbúnum hjálpartækjum. “

Hann er löngu sprunginn og það er verið að nýta hvern einasta fermetra í skólanum
Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg mun skýrast á næstu vikum hvort unnt verði að stækka Klettaskóla með því að finna honum annan stað til viðbótar.

Arnarskóli, sérskóli í Kópavogi, hefur einnig þurft að synja mörgum umsóknum um skólavist en nemendur með einhverfu eru margir þar. Skólastjórnendur þar segja að verið sé að leita lausna til að stækka húsnæðið.

Heimild: Ruv.is