Umfangsmikil áform eru um hóteluppbyggingu víða á landinu, og sú fjárfesting er til áratuga segir framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. Hóteleigandi segist finna fyrir niðursveiflu.
Þrátt fyrir samdrátt í ferðaþjónustunni eru umfangsmikil áform um hóteluppbygginu víða um land. Framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar segir að verið sé að fjárfesta áratugi fram í tímann. Hóteleigandi segist finna fyrir niðursveiflunni í atvinnugreininni.
Ekki hægt að horfa á sveiflur innan 18 til 24 mánaða
Samdráttar hefur orðið vart í ferðaþjónustunni undanfarna mánuði. Ferðamenn leita annað, meðal annars vegna verðlags. Samdráttur er í farþegatölum Icelandair og gistinóttum hefur fækkað.
Samt sem áður er búið að opna ný hótel á Reynivöllum við Jökulsárlón, á Orrustustöðum, í Kerlingafjöllum og unnið er að lúxushóteli við Grenivík í Eyjafirði. Framkvæmdir eru hafnar við hótel á reit gamla sjónvarpshússins við Laugarveg og áform eru um hótel víða um land.
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir fjárfestingu í hótelum vera langtímafjárfestingu.
„Það er verið að fjárfesta til áratuga fram í tímann og þess vegna þýðir ekki að horfa á einhverjar sveiflur innan sex, tólf, átján eða tuttugu og fjögurra mánaða þegar verið er að taka ákvarðanir um slíkt. Heldur er verið að horfa á það hvernig möguleg þróun atvinnugreinarinnar og ferðaþjónustunnar verður inn í mjög langan tíma.“
Hann bendir á að mikil hóteluppbygging hafi orðið á afar skömmum tíma á áfangastöðum í kringum Ísland og nefnir Kaupmannahöfn sem dæmi. Framboð hótelherbergja geti þá orðið of mikið um tíma en það jafnist út þegar markaðurinn taki við sér og eftirspurnin aukist.
Ákvarðanir um framkvæmdir í hótelgeiranum hér á landi séu teknar á skýrum forsendum sem gögn og spár styðji.
„Þótt að það geti verið á einhverjum tímapunkti, að einhver geti sagt að það sé nægt hótelrými hér á suðvesturhoninu. Þá verður að horfa líka til þess að við erum áfangastaður sem er að reyna að fá ferðamennina til að dreifa sér víðar um landið til þess að verðmætin og uppbyggingin sem fylgir atvinnugreininni dreifist betur um landið. Til þess þarf að byggja hótelrými.“
Finnur fyrir niðursveiflunni í ferðaþjónustunni
Hjörtur Gíslason er í stjórn félags fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu. Hann tekur undir með Jóhannesi um að hóteleigendur eigi að horfa til lengri tíma en einnar vertíðar.
„Þetta er framtíðarfjárfesting fyrir geirann og Ísland. Því ef við ætlum að fá meira út úr ferðabransanum þá eru betur borgandi farþegar sem koma á hótel.“
Hjörtur segir hóteleigendur finna fyrir niðursveiflunni í ferðaþjónustunni.
„Það er bakslag hjá okkur en við megum alltaf búast við sveiflum af þessu tagi, ekki bara upp á við heldur líka niður á við.“
Það sem hjálpi mest við að mæta sveiflunum sé þegar fyrirtæki séu sterk efnhagslega þannig að þau ráði við þær. „En þetta er að taka á, svo sannarlega“
Heimild: Ruv.is