Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina greiddi atkvæði gegn tillögunni og sjálfstæðismenn lýstu vonbrigðum með að einkafyrirtæki væru útilokuð með þessum hætti.
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina, bókaði að hún teldi órökrétt að auglýsa eftir samstarfsaðilum um uppbyggingu þegar hvorki væri búið að úthluta lóðum né lægi fyrir hvaða leiðir ætti að fara í uppbyggingu svokallaðra Reykjavíkurhúsa til að leigutakar fái íbúðir á sem hagstæðustu verði.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins bókuðu að þeir styddu allar góðar hugmyndir sem leysi úr alvarlegum aðstæðum á húsnæðismarkaði í Reykjavík. Þeir sögðu að í nýlegri skýrslu um Reykjavíkurhús væri hallast meira að aðkomu einkaaðila en í fyri tillögum, þar með væri komið meira en fyrr til móts við sjónarmið Sjálfstæðisflokksins. Þeir furðuðu sig á að samkvæmt tillögunni sem var samþykkt í gær væri ekki leitað leiða á almennum markaði til að fá hagstæðasta verð fyrir leigjendur og kaupendur. Það væri vegna þess að einungis eigi að leita til þeirra félaga sem séu rekin án hagnaðarsjónarmiða en ákveðinn hluti markaðarins útilokaður.
Úthluta lóðum eftir útboð
Borgarráð samþykkti einnig á fundi sínum í gær að úthluta tveimur lóðum í Vesturbugt eftir auglýsingu til þeirra sem leggja fram hagstæðustu tilboðin í lóðirnar. Samþykktin felur einnig í sér að Reykjavíkurborg kaupi allt að 80 af 170 íbúðum sem byggðar verða á lóðunum, húsnæði fyrir bílageymslur og rými fyrir leikskóla. Þá verður borginni heimilt að framselja íbúðirnar til Félagsbústaða og sjálfseignarstofnana sem reknar eru án hagnarðarsjónarmiða.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks vildu vísa tillögunni til umhverfis- og skipulagsráðs en meirihlutinn hafnaði því með þeim orðum að ekki væri aðstæða til að draga aðgerðir í húsnæðismálum frekar á langinn með þeim hætti. Sjálfstæðismenn svöruðu með því að segja að það hefði validð verulegum vonbrigðum hversu seint það hefði gengið hjá meirihlutaflokkunum í borgarstjórn að leggja fram raunhæfar tillögur til úrbóta á húsnæðismarkaði.
Heimild: Rúv.is