Framkvæmdir við verkið Hringvegur (1) um Hornafjörð eru í fullum gangi.
Um er að ræða nýja legu Hringvegarins um Hornafjarðarfljót sem mun stytta núverandi Hringveg um 12 kílómetra.
Framkvæmdin felur í sér lagningu 19 kílómetra langs þjóðvegar og 9 km af hliðarvegum, byggingu fjögurra tvíbreiðra brúa auk tveggja áningarstaða.
Fyrsti áfangi verksins, sem unninn var að fyrirtækinu Jökulfelli, fólst í gerð rétt tæplega 5 km langrar vegfyllingar frá vesturenda svæðisins og jafnframt gerð tilraunakafla rétt sunnan fyrirhugaðra gatnamóta niður á Höfn, sunnan við bæinn Hafnarnes.
Samið var um megin framkvæmdina við Ístak í júlí 2022 en framkvæmdir hófust síðsumars sama ár.
Verktaki reisti veglega starfsmannaaðstöðu ásamt verkstæðis- og geymsluaðstöðu við veg að Skógareyjarnámu. Verkið er nokkurn vegin á áætlun.
Einstakir verkhlutar eru á eftir áætlun og aðrir á undan. Yfir vetrartímann eru um 30 manns að störfum og um 20 stórvirkar vinnuvélar nýttar til verksins. Verkinu á að ljúka í október 2025.
Verkþættirnir eru eftirfarandi
- Þjóðvegir (C8), alls um 18,5 km
- Tengivegir (C7), alls um 4,4 km
- Hliðarvegir (D), alls um 4,4 km
- Brú yfir Djúpá, 52 m
- Brú yfir Hornafjarðarfljót, 250 m
- Brú yfir Hoffellsá, 114 m
- Brú yfir Bergá, 52 m
- Áningarstaðir, 2 stk.
- Við Brunnhól
- Við Hafnarafleggjara
Vegagerð
Nýr Hringvegur verður 18,58 km langur. Kaflinn hefst rétt vestan Hólmsvegar og endar vestan við Dynjandisveg. Einnig falla undir þennan verkhluta nýir vegkaflar á Hafnarvegi og Hornafjarðarvegi svo og Djúpárvegur, Brunnhólsvegur, kafli á Þinganesvegi og nýr Hagavegur.
Varnargarður við Hornafjarðarfljót austanvert verður framlengdur niður á nýjan Hringveg. Þá verður Skógeyjarvegur lagður af varnargarði að Skógeyjarnámu.
Hringvegurinn verður af vegtegund C8. Það þýðir að hann er átta metra breiður með tveimur akreinum. Hann verður þó breiðari milli Djúpárvegar og Hafnarvegar.
Nýir hlutar Hafnarvegar og Hornafjarðarvegar verða einnig átta metra breiðir, Djúpárvegur 7 metra breiður en aðrir vegir af tegundinni D4, fjögurra metra breiðir með einni akrein og útskotum.
Brú yfir Djúpá
Brúin verður um 1,9 km sunnan við núverandi bú yfir Djúpá. Hún verður 52 metra löng eftirspennt bitabrú í tveimur höfum. Akbrautin verður 9 metrar og bríkur hálfur metri sitt hvoru megin.
Brúin verður grunduð á 30 m löngum steyptum niðurrekstrarstaurum. Djúpá verður veitt í eldri farveg, um 1,5 km ofan brúarstæðis, á framkvæmdatíma.
Verkstaða í lok janúar: Vinna við uppslátt brúarinnar er hafin.
Brú yfir Hornafjarðarfljót
Nýja brúin yfir Hornafjarðarfljót verður sjö kílómetrum sunnan við núverandi brú yfir Hornafjarðarfljót. Brúin verður 250 m löng steypt eftirspennt bitabrú í sex höfum, með 35 m endahöf og 45 m millihöfum. Hún er tvíbreið og 10 metra breið með 9 metra breiðri akbraut.
Vegna jarðvegsgerðar þurfti að fergja brúarstæðið í töluverðan tíma áður en hægt var að byrja framkvæmdir. Þá er brúin byggð í tveimur áföngum svo hægt sé að veita ánni framhjá.
Verkstaða í lok janúar: Vinna við uppslátt brúarinnar er hafin.
Brú yfir Hoffellsá
Brúin verður 114 metra löng steypt, eftirspennt bitabrú í þremur höfum, með 35 m endahöf og 44 m millihafi. Hún er tvíbreið, 10 metra breið með 9 metra akbraut. Brúin er grunduð á steyptum niðurrekstrarstaurum.
Verkstaða í lok janúar: Verið að huga að brúargerð til að koma fyllingu austur fyrir á og að Bergá. Stefnt er á niðurrekstur staura í lok febrúar.
Brú yfir Bergá
Brúin verður 52 metra löng steypt eftirspennt bitabrú í tveimur höfum, 26 metra löngum. Tvíbreið brú og tíu metra breið líkt og hinar brýrnar á framkvæmdakaflanum. Brúin verður grunduð á steyptum niðurrekstrarstaurum. Við Bergá eru jarðlög mjög mjúk og gert ráð fyrir töluverðu sigi. Því þurfti að fergja svæðið í það minnsta í heilt ár.
Verkstaða í lok janúar: Farg er áfram á vegi eitthvað fram á árið.
Heimild: Vegagerdin.is