Home Fréttir Í fréttum Góður kippur í sölu fasteigna á Austurlandi

Góður kippur í sölu fasteigna á Austurlandi

104
0
Fasteignamarkaðurinn tók mikinn kipp fyrir tveimur vikum síðan og fátt sem bendir til að það breytist á næstunni. Mynd: Austurfrett.is

Eftir töluverða ládeyðu á fasteignamarkaðnum austanlands frá miðjum desember fram í miðjan janúar hefur komið töluverður kippur í hlutina að sögn fasteignasala sem Austurfrétt hefur rætt við. Markaðurinn greinilega vaknaður til lífsins á nýju ári.

<>

Halda mætti að fólk setti sölu eða kaup á fasteignum á hilluna svona yfir hátíðlegasta tíma ársins í desember þegar æði margt annað tekur jafnan alveg nógan tíma. Það gerðist vissulega nú að sögn Þórdísar Pálu Reynisdóttur, fasteignasala hjá Lindin-fasteignasölu, en það líka í fyrsta skipti í áraraðir.

„Þetta var reyndar mjög óvenjulegt. Ég hef lengi staðið í fasteignasölu á Austurlandi og ég man ekki eftir því áður að svo rólegt hafi verið yfir markaðnum á þessum tíma. Þvert á móti hefur reglan verið að ég hef verið að ganga frá samningum langt frameftir Þorláksmessu velflest síðustu árin og góð hreyfing verið reglan yfir þann tíma líka. En þess vegna var mikill kippur sem í hlutina kom um miðjan janúarmánuð svo áberandi og það verið mikil hreyfing á markaðnum austanlands síðan.“

Aðspurð telur Þórdís að batnandi þjóðhagsspá með tilheyrandi hugsanlegum vaxtalækkunum sé að skipta máli því fólk haldi gjarnan mun meira að sér höndum við fasteignakaup þegar útlitið framundan sé dökkt eins og verið hefur um hríð.

„Það þarf ekki mikið til að það safnist upp eftirspurn á skömmum tíma og mér sýnist þessi óvenjulega ládeyða hafa skapað slíka uppsöfnun. Ástæðurnar geta verið margvíslegar því þó verðbólga og vaxtastig hafa ekki breyst ýkja mikið upp á síðkastið þá skiptir fleira máli þegar fólk er að kaupa eða selja fasteign. Þar hjálpar alltaf til ef framtíðarhorfur eru að batna eins og þetta lítur út nú samkvæmt fréttum og verður vonandi að veruleika.“

Þórdís segir að þessa stundina séu kringum 40 eignir á söluskrá LF-fasteignasölu austanlands og þær eignir flestar í Fjarðabyggð. Þar um að ræða bæði íbúðarhúsnæði og atvinnuhúsnæði.

„Á þeim tíma sem ég hef verið að standa í þessu hef ég mest verið með kringum hundrað eignir á Austurlandi til sölu á sama tíma en það líka farið alveg niður í tuttugu þegar mest gekk á. Almennt má segja að verð á fasteignum austanlands sé ekki að lækka enda hefur það í raun ekki gerst um nokkurra ára skeið og ekkert útlit fyrir slíkt í kortunum að mínu mati.“

Heimild: Austurfrett.is