Gerð nýrra mislægra gatnamóta í hrauninu milli Straumsvíkur og Hvassahrauns fylgir breikkun Reykjanesbrautar, sem hófst fyrr í vetur. Gatnamótunum er ætlað að greiða leið að nýjum framtíðar byggingarsvæðum Hafnarfjarðar, að því er fram kom í fréttatilkynningu Vegagerðarinnar.
Í þættinum Pallborðinu á Vísi, þar sem Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði, og jarðvísindamennirnir Kristín Jónsdóttir og Magnús Tumi Guðmundsson ræddu um þá ógn sem íbúum höfuðborgarsvæðisins kynni að stafa af eldsumbrotum og jarðskjálfum, var athygli vakin á því að á sama tíma og áhyggjur eru af hugsanlegu hraunrennsli á þessu svæði sé verið að byggja þarna mislæg gatnamót og leggja þannig drög að nýjum hverfum fyrir Hafnarfjörð.
„En þá fáum við vonandi tíma til að gera varnargarða,“ sagði Rósa og var síðan spurð hvort ástæða væri til stöðva þessar framkvæmdir.
„Það held ég ekki. Enda hefur ekki komið ástæða fyrir því.“
Hún vísaði til umræðu fyrr í þættinum um að eldsumbrot nærri höfuðborgarsvæðinu myndu eiga sér langan aðdraganda. Ef menn teldu að brautinni og þessu hverfi myndi stafa hætta af hraunflæði þá hefðu menn tíma til að hanna garða og grípa til annarra mótvægisaðgerða.
„Auðvitað höldum við bara áfram þangað til annað kemur í ljós. Og höfum þá möguleika til að grípa til aðgerða, eftir því hvernig skýrslur og annað koma fram í vor. Og vonandi verður þá nokkurra ára aðdragandi ef eitthvað gerist í grennd við höfuðborgarsvæðið á næstu árum eða hvenær sem það verður,“ sagði bæjarstjórinn.
Þau Kristín og Magnús Tumi voru einnig spurð um afstöðu sína til frekari útþenslu byggðar út í hraunin við Hafnarfjörð. Svörin má sjá í þessu myndskeiði.
Heimild: Visir.is