Landeigendur á Sólheimasandi eru spældir yfir frágangi verktaka sem skilið hefur eftir brak úr gömlu brúnni sem rifin var þegar ný brú var byggð yfir Jökulsá á Sólheimasandi.
Nýja brúin hefur verið tekin í gagnið en verktakinn hefur ekki látið sjá sig síðan um áramót að sögn landeiganda. Enn var eftir að fjarlægja talsvert af gömlu brúnni og víða má sjá steypuklumpa, spýtnabrak, bolta og rær.
„Frágangurinn á svæðinu er fyrir neðan allar hellur og engum til sóma,“ segir Benedikt Bragason, einn landeigenda og framkvæmdastjóri landeigenda á svæðinu.
Hann segir að Vegagerðin sé með verkið opið og ábyrgðin því á herðum verktakans.
Vegagerðin á hrós skilið
„Vegagerðin hefur alla tíð gengið mjög vel frá eftir sig og á allt hrós skilið fyrir það. Hins vegar eru farnar að renna tvær grímur á mann varðandi það hvort verktakinn muni ganga frá þessu,“ segir Benedikt.
Steypujárn og steypuklumpar eru farnir að grafast í sandinn og segir Benedikt menn skapa sér meiri vinnu við að hreinsa þetta eftir því sem tíminn líður. „Svo eru hellings verðmæti þarna sem menn hafa hlaupið frá og maður skilur ekki alveg hvernig menn eru að hugsa þetta.“
Hent í ána
Nýja brúin var opnuð í október og er um hið glæsilegasta mannvirki að ræða að sögn Benedikts.
„Svo þegar kom að því að losa mótin utan um brúna þá var því bara hent í ána. Ég veit ekki hvað ég er búinn að ná í mikið af efni sem var hent þarna í ána en það eru fleiri fleiri kerrur af spýtnabraki sem ég hef þurft að ná í,“ segir Benedikt og bætir við. „Þetta er eitt hreinasta svæði landsins og manni finnst þetta leiðinlegt,“ segir hann.
Þá er einnig steypt plan á svæðinu sem verktakinn nýtti þegar hann var að steypa efnið í nýju brúna. Ekkert leyfi sé fyrir planinu sem er á skilgreindu flóðasvæði en Benedikt segir ferðamenn gjarnan stöðva þar.
Hættulegt skepnum
Benedikt segir að steypujárn sem stingist úr sandinum sé skepnum hættulegt og gjarnan séu kindur og hestar sem eigi þar leið um. „Það á bara ekki að skilja svona við.“
Hann segir að menn hafi sýnt því skilning þegar verktakar yfirgáfu svæðið um áramót þar sem snjóa tók á svæðinu. Hins vegar hafi verið nær snjólaust í fleiri mánuði og ekkert sem því er að vanbúnaði að hreinsa til.
Þá segist hann vita til þess að verktakinn hafi tekið að sér sambærileg verkefni fyrir Vegagerðina á landsvæði sem er í eigu landeigenda. „Maður veltir því fyrir sér hvort maður eigi að setja sig í samband við þá svo þeir geti hvatt til betri frágangs.“
Hann segir að verktakinn hafi hringt í sig og boðið sér 50 þúsund krónur í bætur.
„Svo þegar hann frétti að landeigendurnir væru 12 þá áttaði hann sig á því að 50 þúsund kall myndi ekki duga,“ segir Benedikt. Segir hann menn ekki á höttunum eftir peningabótum. Menn vilji bara úrbætur á málum.
Heimild: Mbl.is