Setja þarf hömlur á notkun reiðufjár í viðskiptum í atvinnurekstri og innleiða að fullu áhættumiðað eftirlit í virðisaukaskatti. Þetta er meðal fjölmargra tillagna til úrbóta sem fram koma í skýrslu starfshóps sem fjármála- og efnahagsráðherra skipaði um aðgerðir til að sporna við misnotkun skattkerfisins m.a. með útgáfu tilhæfulausra sölureikninga.
Var það samdóma álit viðmælenda sem starfshópurinn leitaði til að í málum tengdum útgáfu tilhæfulausra sölureikninga og reiðufé hafi umfang tilhæfulausra reikninga verið töluvert og varði mikla fjármuni.
„Þá er ýmislegt sem bendir til þess að þau mál sem tengjast útgáfu tilhæfulausra reikninga og ratað hafa inn á borð rannsóknadeildar Skattsins séu aðeins toppurinn á ísjakanum,“ segir í skýrslunni. Aðaleinkenni þessara mála eru úttektir í reiðufé í kjölfar greiðslna frá meintum kaupendum á sölureikningum þar sem slóð fjármunanna hverfur.
Birtar eru upplýsingar frá rannsóknadeild Skattsins um fjölda mála af þessum toga. „Samkvæmt þeim voru stofnuð 132 mál í framhaldi af tilkynningum frá SFL [skrifstofu fjármálagreininga lögreglu] á tímabilinu frá janúar 2020 til og með september 2022.
Þar af eru 51 mál eða 39% af málum tengd útgáfu tilhæfulausra reikninga og reiðufjárúttektum. Þá var 135 málum vísað til rannsóknadeildar frá öðrum sviðum Skattsins á árunum 2020 og 2021, þar af voru 65 eða um 48% málanna vegna gruns um útgáfu tilhæfulausra reikninga og reiðufjárúttektir.“