45 íbúðalóðum fyrir 97 íbúðir var úthlutað í Reykjavík árið 2015. Langstærstur hluti lóðanna var í Úlfarsárdal og fór meiri en helmingur úthlutanna fram í nóvember og desember 2015. Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar- og flugvallarvina, furðar sig á því að engri fjölbýlishúsalóð hafi verið úthlutað með fleiri en fimm íbúðum á síðasta ári.
„Við vitum að það vantar lóðir, það vantar fjölbýlishús, það vantar minni íbúðir. Það er til að mynda mikill fjöldi af ungu fólki sem er á almenna leigumarkaðnum sem er að borga langt umfram greiðslugetu sem hefur ekki efni á því að kaupa húsnæði sjálft og það skiptir miklu máli að það séu byggðar slíkar íbúðir,“ segir Guðfinna í samtali við fréttastofu.
Að hennar mati felst lausnin á húsnæðisvandanum í Reykjavík meðal annars í því að úthluta lóðum til svokallaðra „non-profit“-félaga sem gætu þá bæði byggt búseturéttaríbúðir og leiguíbúðir fyrir ungt fólk sem á í erfiðleikum með að kaupa sér húsnæði.
„Málið er það að þær lóðir sem verið er að byggja á í dag eru flestar í höndum verktaka eða banka og þessir aðilar eru auðvitað ekkert að byggja ódýrar íbúðir til sölu eða leigu. Því skiptir miklu máli að borgin sem á að sjá um að úthluta lóðum sé með lóðir til þess að úthluta. Þetta eru aðallega einbýlishúsalóðir og parhús-og raðhúsalóðir í Úlfarsárdalnum á síðasta ári fyrir utan örfáar lóðir í öðrum póstnúmerum þannig að ef við ætlum að leysa húsnæðisvandann þá verður borgin að geta úthlutað fjölbýlishúsalóðum,“ segir Guðfinna.
Heimild: Vísir.is