Félags- og húsnæðismálaráðherra og Vigdísarholt ehf. undirrituðu í gær samkomulag um byggingu og rekstur nýs 108 rýma hjúkrunarheimilis í Vatnshlíð við Ásvallarbraut í Hafnarfirði. Samhliða var undirritað samkomulag milli Vigdísarholts og Hafnarfjarðarbæjar um lóðaúthlutun á svæðinu.
Nákvæm staðsetning lóðar og endanleg stærð verður ákvörðuð af Hafnarfjarðarbæ þegar deiliskipulag svæðisins liggur fyrir. Gert er ráð fyrir að endurskoðun aðalskipulags ljúki næsta vor og að lóðin verði tilbúin til framkvæmda á árinu 2027.
Mun Hafnarfjarðarbær afhenda lóðina án endurgjalds í samræmi við lög. Hafnarfjarðarbæ er þó heimilt að innheimta gatnagerðargjöld í samræmi við samkomulag ríkis og sveitarfélaga um ábyrgðaskiptingu á uppbyggingu hjúkrunarheimila. Vigdísarholt skal hefja framkvæmdir eigi síðar en tveimur árum eftir afhendingu.
Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra:
„Með þessari viljayfirlýsingu við Vigdísarholt og Hafnarfjarðarbæ erum við að senda skýr skilaboð: Við ætlum að bregðast við. Við ætlum að byggja upp. Og við ætlum að gera það í samstarfi og með hagsmuni fólksins að leiðarljósi. Ég óska Hafnfirðingum innilega til hamingju með þennan áfanga og hlakka til að fylgjast með verkefninu raungerast.“
Kristján Sigurðsson, framkvæmdastjóri Vigdísarholts:
„Stjórnendur Vigdísarholts eru mjög spenntir fyrir þessu nýja verkefni og uppbyggingu öflugs lífsgæðakjarna á svæðinu. Verkefnið samrýmist vel framtíðarsýn Vigdísarholts um heildstæða og metnaðarfulla þjónustu sem miðar að bættum lífsgæðum íbúa. Áform Vigdísarholts fela í sér að reisa hjúkrunarheimili þar sem velferð, virðing og einstaklingsmiðuð nálgun er höfð að leiðarljósi“
Valdimar Víðisson, bæjarstjóri:
„Svona uppbygging snýst um öryggi, þjónustu og reisn fyrir eldra fólk og aðstandendur þeirra. Nú förum við af fullum krafti í skipulagsvinnuna svo lóðin verði tilbúin til framkvæmda árið 2027. Þetta er mjög mikilvægt skref fyrir Hafnarfjörð og ég fagna því að við séum komin með skýra viljayfirlýsingu um uppbyggingu hjúkrunarheimilis fyrir allt að 108 rými. Þörfin er mikil.“
Aðalskipulag og hönnun fer í fullan gang eftir undirritun viljayfirlýsingarinnar og standa vonir til að framkvæmdir geti hafist á fyrri hluta næsta árs þannig að nýtt hjúkrunarheimili hefji starfsemi á árinu 2029.
Heimild: Stjornarradid.is












