
Fulltrúar Mosfellsbæjar og Blikastaðalands ehf. undirrituðu í vikunni samkomulag um breytingar á útfærslu fyrirhugaðrar uppbyggingar í Blikastaðalandi. Þar eiga að rísa allt að 3.500 til 3.700 íbúðir.
Samkomulagið felur í sér að innviðagjöld hækki og Mosfellsbær fái fyrr borgað en á móti kemur að ekki verður lengur gert ráð fyrir hlutdeild bæjarins í framtíðarsölu lóða. Heildargreiðslur fyrirtækisins til bæjarins fara úr tólf milljörðum í allt að sextán milljarða.
Tvöfalda á framlag til íþróttamannvirkja og stefnt er að því að byggja tvo grunnskóla, fjóra leikskóla, íþróttahús og minnst fjóra búsetukjarna fyrir fatlað fólk.











