
Skipulagsfulltrúi Reykjavíkur hefur tekið jákvætt í fyrirspurn Reita fasteignafélags hf. um að breyta efri hæðum hússins Laugavegar 26 úr verslunar- og skrifstofuhúsnæði í íbúðir.
Það hefur færst í vöxt að efri hæðum stórhýsa við Laugaveg sé breytt í íbúðir. Nýlega var t.d. samþykkt að íbúðir verði innréttaðar í Landsbankahúsinu á Laugavegi 77.
Það voru Trípóli arkitektar sem sendu inn fyrirspurnina fyrir hönd húseigandans Reita.
Óskað var eftir að breyta efstu þremur hæðum Laugavegar 26 í íbúðir. Á jarðhæð og kjallara hússins verða áfram verslun og þjónusta. Auk þess var óskað eftir að bæta við svölum á 3. hæð til suðvesturs og stækka efstu hæðina til norðausturs, samkvæmt tillögu Trípólí.
Heimild: Mbl.is











