Forsvarsmenn fyrirtækisins FF 11 ehf. hafa lagt fram kæru á hendur tveimur fyrirtækjum, fasteignafélaginu Regin hf. og dótturfyrirtæki þess, RA 5 ehf., fyrir meint brot gegn almennum hegningarlögum og lögum um brunavarnir vegna brunans í Miðhrauni 4 í Garðabæ 5. apríl 2018.
Byggist kæran á niðurstöðum rannsóknar Mannvirkjastofnunar og fleiri opinberra aðila á brunanum en hvorki var óskað eftir lokaúttekt þegar húsnæðið var fyrst tekið í notkun né úttekt á stöðu framkvæmda við sama tækifæri.
Eldvarnaeftirlit slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins sinnti ekki reglubundnu eldvarnaeftirliti í samræmi við reglugerð og að lokum var ekki sótt um leyfi fyrir breyttri notkun byggingarinnar „þegar henni var breytt með afgerandi hætti úr kvikmyndastúdíói fyrir Latabæ í lager með auknu brunaálagi“.
Nýtt hlutverk rýmisins var fatalager Drífu ehf. sem framleiddi og seldi útivistarfatnað úr hraðbrennanlegu efni. Eina lausnin með tilliti til brunaöryggis eftir þá breytingu hefði að áliti Mannvirkjastofnunar verið vatnsúðakerfi fyrir mikla áhættu ásamt slíku kerfi í allar hillur. Hefðu eigandi og forráðamaður húsnæðisins átt að gera sér grein fyrir auknu brunaálagi vegna lagers Drífu ehf.
Var mat slökkviliðsstjóra að við fyrri notkun hússins sem kvikmyndavers hefði bruni af þessum toga aldrei verið mögulegur.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.
Heimild: Mbl.is